Laugafiskur, dótturfyrirtæki Brims hf., hefur í mörg ár veitt fjárhagslegan stuðning til augnaaðgerða í Nígeríu, en Afríkuríkið er einn stærsti kaupandi þurrkverkunarinnar. Slíkur stuðningur, sem fleiri fyrirtæki koma að, þar á meðal íslensk og færeysk fiskvinnslufyrirtæki, hefur haft mikil áhrif í samfélaginu.
Könnun sem gerð var í nóvember síðastliðnum leiddi í ljós að augnsjúkdómasetrið í Calabar, höfuðborg fylkisins, hafði náð að framkvæma 12.000 augnaðgerðir, sjúklingum algjörlega að kostnaðaralausu.
Það eru góðgerðarsamtökin Tulsi Chanrai sem stýra verkefninu, en aðgerðirnar fara fram á sjúkrahúsi borgarinnar. Samtökin standa vörð um grundvallarþætti bættrar lýðheilsu í Cross River State fylki í suðurhluta Nígeríu, kanna ástandið á fátækustu svæðunum, meta þörfina og fylgja aðgerðum eftir. Samtökin hafa verið starfandi frá árinu 2003 þegar þau settu upp fyrsta læknasetur sitt og gátu á hálfu ári sinnt liðlega þúsund sjúklingum.
Í fylkinu búa 2,7 milljónir manna og um það bil 27 þúsund manns eru greindir með alvarlega augnsjúkdóma, þar af 65% með læknanlega sjúkdóma eins og vagl og gláku. Um 2.660 ný tilfelli greinast á hverju ári.
Þetta kemur fram á heimasíðu Brim hf. Sjá nánar HÉR