„Það hefur gengið mjög vel,“ segir Þórólfur Júlían Dagsson á Hafdal GK um strandveiðina það sem af er.

„Ég byrjaði reyndar á því að fara í Röstina á laugardeginum áður en strandveiðin hófst og tók tvö tonn af ufsa. Þetta var á tíu metra dýpi, allt risaufsi og ég endaði á að togna í hendinni,“ segir Þórólfur sem í kjölfarið var að drepast í höndinni. Ufsinn  hafi verið á bilinu átta til tíu kíló.

„Ég fór á strandveiðarnar og náði skammtinum fyrsta daginn, fór reyndar aðeins yfir,“ segir Þórólfur. Menn þurfi gjarnan að stilla sig af gagnvart magninu fyrstu dagana.

Haltu áfram að vinna

Eftir annan strandveiðidaginn kveðst Þórólfur hafa leitað sér læknisaðstoðar, verið settur  á bólgueyðandi lyf og látinn hafa spelku.

Þegar rætt er við Þórólf um miðjan morgun í gær er hann um það bil að ljúka við að draga síðustu þorskana um borð upp í dagskammtinn sinn. „Ég tók ekki helvítis spelkuna fyrir hendina“ bölvar hann sjálfum sér í símann og kippir tveimur þorskum og einum ufsa í yfirstærð inn fyrir borðstokkinn.

„Þegar ég var að byrja til sjós sagði afi sagði við mig: Ef þú verður sjóveikur þá heldurðu áfram að vinna. Ef þú slasar þig þá láttu tjasla þér saman, haltu áfram að vinna og reyndu að gera þitt besta. Ef þú gerir það þá bera mennirnir virðingu fyrir þér. Og ég hef einhvern veginn haldið mig við,“ segir Þórólfur.

Bjartsýnn en leiðast hótanir

Spurður um útlitið í strandveiðum sumarsins segist Þórólfur mjög bjartsýnn á að allt gangi vel. Verð á markaði sé gott og útlit fyrir hækkun á þorskverði til lengri tíma.

„Mér finnst samt rosalega leiðinlegt, sem ég frétti af, að SFS hafi hótað því að ef það verður sett eitt kíló í strandveiðarnar í viðbót þá heimti þeir að fá níu kíló á móti út af aflareglunni,“ segir hann. Tímabært sé nú orðið að menn slíðri sverðin.

„Ég væri alveg til í að hitta þetta lið og finna einhverja lausn á þessu, því það er alveg hægt. Ég skil ekki þessa þvermóðsku,“ segir Þórólfur og gagnrýnir hvernig menn rífi hverjir aðra niður á báða bóga. „Þetta hjálpar engum, við erum bara að eyðileggja fyrir sjálfum okkur. Ég væri miklu meira til í að við myndum standa öll saman sem erum að veiða íslenskan fisk,“ segir Þórólfur.

Annars drögumst við aftur úr

Ný og umtöluð mynd Davids Attenborough um hafið er Þórólfi hugleikin. Þar segir hann að sagt sé frá svæðum sem vernduð voru fyrir öllum veiðum.

„Ef botninn fær að taka sig þá kemur fiskurinn. Það gefur auga leið að ef þú verndar svæði sem er uppeldis- og vaxtarstöð fyrir fisk þá græða allir. Við erum að rífast um það hvort það eigi að fara fimm kílóum meira hér eða þar eða borga meira til þjóðarinnar sem hjálpar okkur ekki mikið. Það þarf að borga meira í Hafrannsóknastofnun. Annars drögumst við bara aftur úr. Við megum bara ekki við því.“

Þórólfur kveðst nýbúinn að taka Hafdalinn allan í gegn og ekki hafi verið vanþörf á. „Hann var sex mánuði upp og ég og Fúsi flugvirki skveruðum hann alveg hjá Jóa í Stuðlastáli, það er ný vél og Netberg tók rafmagnið í honum í gegn. Og meira að segja rekkverkið er gullslegið,“ segir Þórólfur og hlær.