Danska skipafélagið Maersk, sem er stærsta skipafélag heims í gámaflutningum, hefur ákveðið að fjárfesta í átta nýjum flutningaskipum sem munu brenna metanóli í stað hefðbundins jarðefnaeldsneytis. Þetta er gert í anda þess að floti félagsins verði umhverfisvænni og verður 1,4 milljörðum Bandaríkjadala varið til skipasmíðanna, eða 180 milljörðum íslenskra króna.
Hvert þessara átta skipa munu kosta 175 milljónir Bandaríkjadala eða 22,5 milljarða króna. Þau verða afhent skipafélaginu eitt af öðru og það fyrsta árið 2024. Þau munu geta borið 16.000 gáma, eins og segir í frétt Bloomberg en þessi skip eru í anda þeirrar yfirlýsingar Maersk að öll ný skip sem félagið mun láta smíða muni verða þannig búin að geta nýtt græna orkugjafa.
Það er Hyundai Heavy Industries Co., sem smíða munu skipin átta en þau hafa um þrjú prósent af flutningagetu Maersk þegar þau hafa verið tekin í gagnið. Þau munu leysa eldri skip félagsins af hólmi en samningar innihalda þann möguleika að fjölga skipunum í tólf, ef Maersk óskar þess.
Flutningar á sjó, sem eru bakbeinið í alþjóðaviðskiptum, eru taldir valdur af þremur prósentum af þeim gróðurhúsalofttegundum sem losaðar eru út í andrúmsloftið af mannavöldum.
Maersk er ekki eina skipafélagið sem hefur hug á að nýta græna orku til siglinga skipa sinna. Euronav NV, sem rekur flota olíuflutningaskipa, mun láta smíða skip sem geta nýtt græna orkugjafa. Viðskiptarisinn Cargill, eitt stærsta fyrirtæki í einkaeigu í heiminum, hefur boðað að floti félagsins verði grænni í nánustu framtíð.