HB Grandi hefur áður upplýst um samninga sem gerðir voru um smíði þriggja nýrra ísfisktogara fyrir félagið. Það er skipasmíðastöðin Celiktrans Deniz Insaat Ltd. Sti., Tuzla, Tyrklandi sem annast smíði togaranna en fyrir hefur stöðin smíðað tvö uppsjávarskip fyrir HB Granda. Nýju skipin munu leysa þrjá togara af hólmi sem nú eru í rekstri, Ásbjörn RE 50, Sturlaug H. Böðvarsson AK10 og Ottó N. Þorláksson RE 203. Með nýju skipunum eykst hagkvæmni í rekstri, þau munu eyða minni olíu, aflameðferð og nýting verður betri, rekstraröryggi eykst og viðhaldskostnaður mun lækka. Munu hin nýju skip bera heitin Engey RE 9, Akurey AK 10 og Viðey RE 50.
Félagið hefur nú gengið frá lánsfjármögnun skipanna við Íslandsbanka hf. og DNB Bank ASA ásamt endurfjármögnun á eldri lánum. Fjármögnunin er allt að fjárhæð EUR 55.000.000 [ígildi 7,8 milljarða ísl. kr.] sem dregið verður á í þremur hlutum og mun lánstími hvers ádráttar vera 5 ár. .
Sjá nánar á vef HB Granda