„Menn eru að gera því skóna að langþráð vestanganga loðnu sé komin á svæðið. Þegar skipin héldu út í gær, eftir að hafa legið í vari við Snæfellsnesi vegna veðurs, fundu þau mjög stóra og flotta loðnuflekki um 18 mílur norðvestur af Öndverðarnesi. Skipin náðu að kasta tvisvar og fengu upp í 1.000 tonn eftir daginn. Núna er hins vegar haugasjór og ekkert veiðiveður,“ sagði Daði Þorsteinsson skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni SU þegar Fiskifréttir ræddu við hann á fimmta tímanum í dag.
„Það sem eflir mönnum trú á að hér sé vestanganga á ferð er að loðnan er miklu skemmra komin að hrygningu en sú loðna sem við vorum að veiða áður en þessi fannst. Og einnig að þetta var margfalt meira magn en það sem áður sást. Menn voru búnir að þvælast fram og til baka með Snæfellsnesinu og inn í Faxaflóa í marga daga en sáu lítið sem ekkert af loðnu, þannig að ástandið var orðið æði uppdráttarlegt áður en þessi loðna blossaði upp í gær og það á mjög svipuðum stað og vestangangan kom í fyrra.“
Eins og áður sagði hefur ekkert veiðiveður verið í dag. „Menn eru að vona að kannski verði eitthvað hægt að aðhafast síðar í dag. Reyndar er spáð blíðuveðri í kvöld en það hefur ekki verið næturveiði á loðnu í mörg ár nema kannski einn dag í fyrra. Það er svo ekki til að flýta fyrir að óhemjumikið er af hval hérna. En þessi nýja loðnuganga sem fannst í gær gefur mönnum vonir um að unnt verði að ná leyfilegum kvóta og bjarga vertíðinni,“ sagði Daði Þorsteinsson.