“Þetta er langminnsti veiðistofn loðnu sem við höfum séð frá því að hófum mælingar þetta snemma að haustinu, það er að segja í september, árið 2010,“ segir Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir í dag. „Núna mældust aðeins 137 þúsund tonn samanborið við 550-800 þúsund tonn árlega á þessu tímabili til þessa.“

Þorsteinn segir að vel hafi gengið að ná yfir leitarsvæðið. “Ég hef ekki neinar stórar væntingar um að meiri loðna eigi eftir að dúkka upp. Við höfum auðvitað reynslu af því að stundum hefur mælst meira af loðnu eftir áramót en í undangenginni haustmælingu en þá er verið að vísa í annað tímabil en núna og önnur leitarskilyrði. Jafnframt þarf að hafa í huga að ungloðnumælingin fyrir einu ári var sú versta í langan tíma og hún er nú staðfest í veiðistofninum. Þetta breytir hins vegar ekki því að nauðsynlegt er að mæla á ný eftir áramótin til að fylgjast með því sem er að gerast og þá verður ráðgjöfin endurskoðuð,” segir Þorsteinn.

Sjá nánar í Fiskifréttum.