Júlíus Geirmundsson ÍS 270, frystitogari Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. kom til heimahafnar fyrr í vikunni með lang verðmætasta afla, sem hann hefur borið að landi í einni veiðiferð, að því er fram kemur á vef útgerðar skipsins.

Veiðiferðin stóð í 39 daga og aflinn upp úr sjó 830 tonn að verðmæti 360 milljónir króna, eða rúmar 9 milljónir að meðaltali á úthaldsdag. Uppistaða aflans er grálúða og ufsi. Við komu skipsins var efnt til grillveislu á hafnarbakkanum fyrir áhöfn skipsins og fjölskyldur þeirra og tókst hún með ágætum. Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar (KFÍ) sá um veitingar með glæsibrag og tónlistarmaðurinn Baldur Geirmundsson hélt uppi fjörinu með harmonikkuleik, segir á vef HG.