Tekin hefur verið ákvörðun um að Landhelgisgæslan fái hafnaraðstöðu varðskip sín í nýrri höfn sem byggð verður í Njarðvík. Stefnt er að því að flutningnum geti orðið á árinu 2025. Með staðsetningunni styttist siglingartíminn suður fyrir landið um tvær klukkustundir.
Vilhjálmur Árnason alþingismaður leiddi viðræður Landhelgisgæslunnar og stjórnar Reykjaneshafna um að nýta Njarðvíkurhöfn fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar í umboði Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Forsaga málsins er sú að mjög hefur þrengt að varðskipum Landhelgisgæslunnar í Reykjavík vegna aukinnar umferðar skemmtiferðaskipa. Gæslan hefur því lengi horft til þess að komast í varanlega aðstöðu með skipakost sinn þar sem hægt er að tryggja öryggi og starfsaðstöðu bæði fyrir áhafnir og þann búnað sem þarf til reksturs varðskipanna.
Vilhjálmur staðfestir í samtali við Fiskifréttir að það liggi nú fyrir ákvörðun um að hafnaraðstaða Landhelgisgæslunnar verði í Njarðvík.
Styttir viðbragðstíma
„Þessi ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli fýsileikaathugunar og þarfagreiningar. Skipastóll Landhelgisgæslunnar flyst til Njarðvíkur og fær þar sína eigin hafnaraðstöðu. Vandamálið hefur verið það að Landhelgisgæslan hefur ekki haft sérstaka aðstöðu í Reykjavíkurhöfn heldur hefur þurft að færa skipin til eftir aðstæðum hverju sinni. Og ástandið hefur versnað með aukinni umferð skemmtiferðaskipa. Nýja aðstaðan verður við hliðina á Skipasmíðastöð Njarðvíkur og henni fylgir húsakostur, þ.e. skemma og skrifstofuaðstaða á hafnarkantinum. Allur sá búnaður og þjónustuaðstaða sem skipastóllinn þarf verður því við höfnina sem og aðstaða til þess að æfa köfun og fleira. Þessari tilhögun mun fylgja mikið rekstrarhagræði. Staðsetningunni fylgir líka sá kostur að varðskipin eru tveimur klukkustundum fyrr á miðin suður fyrir land,“ segir Vilhjálmur.
Þarna verður einnig aðstaða til þess að þjónusta önnur skip, eins og skip á vegum Atlantshafsbandalagsins þegar áhafnaskipti fara fram. Þá verður hafnaraðstaðan í sjö mínútna akstursfjarlægð frá starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli.
„Það felst í þessu mikið þjónustu- og rekstrarhagræði fyrir Landhelgisgæsluna en stóra framfaraskrefið er að með þessu fær sitt eigið umráðasvæði.“
Stórhuga áform
Stórhuga áform eru uppi í Njarðvík um yfirbyggða þurrkví og klasasamstarf skipaþjónustufyrirtækja á fyrirhugaðri landfyllingu við Skipasmíðastöð Njarðvíkur sem gæti sinnt viðgerðum á stærstu skipum íslenska flotans sem og erlendum skipum. Til þess að það verði að veruleika þarf að reisa skjólgarð við höfnina ásamt dýpkunarframkvæmdum. Hvað varðar aðstöðu fyrir Landhelgisgæsluna þyrfti því einungis að byggja hafnarkant utan í skjólgarðinn sem þegar er á fjármálaáætlun.
„Við bindum vonir við það að aðstaðan í Njarðvíkurhöfn fyrir varðskipin verði tilbúin á árinu 2025. Þetta er risastórt framfaraskref fyrir Landhelgisgæsluna,“ segir Vilhjálmur.