Landanir síðustu mánuði í Grindavík hafa verið í takti við meðalár og íbúum bæjarins fjölgar.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Grindavíkur.

„Seigla einkennir atvinnulífið í Grindavík. Þannig hafa til dæmis landanir í Grindavíkurhöfn síðustu mánaða verið í takti við meðalár og ferðamenn hafa verið áberandi í bænum. Ný fyrirtæki hafa hafið starfsemi og önnur sýna sveitarfélaginu áhuga,“ segir á grindavik.is.

Fjölmargir nýtt sér hollvinasamninga við Þórkötlu

Einnig segir að eftir mikla fækkun íbúa með lögheimili í Grindavík undanfarna mánuði hafi íbúum nú fjölgað tvo mánuði í röð og hafi þeir verið alls 880 í gær 1. september 2025. Í lok júní hafi verið 868 íbúar skráðir með lögheimili í bænum og 870 í lok júlí. Íbúum hafi þannig fjölgað um tólf undanfarna tvo mánuði.

„Þrátt fyrir að enn sé langt í að ná fyrri stöðu, gefa þessar tölur til kynna jákvæða þróun og að fleiri sjái framtíð sína í Grindavík á ný. Fjölmargir Grindvíkingar hafa nýtt sér hollvinasamninga við Þórkötlu í sumar og þannig haldið tengslum sínum við heimabæinn. Aðrir hafa sótt Grindavík heim reglulega, til dæmis á knattspyrnuleiki eða aðra viðburði,“ segir á grindavik.is.