Afli íslenskra fiskiskipa var rúmlega 131.000 tonn í ágúst 2020 sem var 16% meiri afli en í ágúst 2019. Botnfiskafli var tæplega 39.000 tonn og jókst um 10% miðað við ágúst 2019. Af botnfisktegundum var þorskaflinn rúm 20.000 tonn og jókst um 22%.
Frá þessu segir Fiskistofa.
Uppsjávarafli var tæplega 89.000 tonn sem var 18% meiri afli en í ágúst 2019. Uppistaða þess afla var makríll, tæp 86.000 tonn. Flatfiskafli var um 2.800 tonn sem er 27% aukning miðað við fyrra ár. Samdráttur var áfram í skel- og krabbadýraafla í ágúst sem var rétt tæp 610 tonn samanborið við 684 tonn í ágúst 2019.
Heildarafli á 12 mánaða tímabili, frá september 2019 til ágúst 2020, var rúmlega 1.011 þúsund tonn sem var 7% minni afli en á sama tímabili ári fyrr.
Aflaverðmæti í ágúst, metið á föstu verðlagi, var 11,2% meira en í ágúst 2019.
Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur.