Vestmannaey VE landaði fullfermi í Eyjum á miðvikudag. Aflinn var mest ýsa ásamt ufsa og þorski. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri sagðist vera þokkalega kátur með veiðiferðina.
„Haldið var til veiða seinni partinn á sunnudag og byrjað að veiða í Reynisdýpinu. Þar var heldur lítið að hafa og því var haldið á Síðugrunn. Á Síðugrunni endurtók sagan sig og þar var afar rólegt fiskirí. Við færðum okkur á Öræfagrunn og þar fannst fiskur og allt gekk vel nema hvað okkur reyndist erfitt að finna ufsa eins og reyndar oft áður. Hér um borð eru allir kátir og í reynd yfir engu að kvarta nema vöntuninni á ufsanum,“ sagði Birgir Þór.
Allan tímann við Ingólfshöfða
Bergey VE kom til löndunar í Eyjum í gær og var aflinn mest ýsa og þorskur og einnig dálítið af ufsa með. Jón Valgeirsson skipstjóri sagði að veiðiferðin hefði gengið nokkuð vel. „Við héldum beint á Ingólfshöfðann og vorum þar allan tímann í blíðunni,“ sagði Jón.
Gullver NS landaði síðan í heimahöfn á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 80 tonn, mest þorskur og síðan einnig ýsa. „Við ætluðum að leggja höfuðáherslu á ýsuveiði en erfiðlega gekk að finna ýsuna. Við hófum veiðar á Skrúðsgrunni, síðan var haldið á Breiðdalsgrunn, þá í Litladýpi og loks á Gauraslóð. Miðað við tímann sem túrinn tók var hann ágætur og veðrið var sallafínt allan tímann en það hefði mátt vera meira af ýsunni,“ sagði Hjálmar Ólafur.
Vestmannaey og Gullver héldu á ný til veiða í gærkvöldi og Bergey hélt til veiða í morgun.