„Þetta getur aðeins endað í hvelli,“ segir Eiður Pétursson, formaður hafnarsjóðs Norðurþings, um horfurnar hjá sjóðnum og þar með sveitarfélaginu sjálfu vegna víkjandi láns sem tekið var til uppbyggingar stórskipahafnar á Húsavík. Lánveitingin upp á 819 milljónir króna var samþykkt með lögum 2013.
Ekkert hefur verið greitt af láninu því samkvæmt skilmálum þess er ekki borgað inn á það nema hafnarsjóður skili hagnaði. Sem hann hefur ekki gert.
Árlega á að reikna verðbætur ofan á höfuðstólinn. Lánið er á gjalddaga árið 2039.
„Það veit enginn í hverju þetta stendur. Ég er að bíða eftir að fá frá ríkinu staðfestingu á hvernig þetta er fært hjá þeim,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri og hafnarstjóri Norðurþings, um stöðu lánsins.
Katrín vonast til að geta lagt stöðuna fyrir næsta fund hafnarstjórnar um miðjan desember. „Við erum að skoða stöðu hafnarsjóðs og hvort hægt er að fá þessu aflétt eða breytt,“ segir hún.
Stórnotandi sem ekki kom
Fjármál hafnarsjóðs voru til umfjöllunar á síðasta fundi sveitarstjórnar Norðurþings og fór Eiður þar yfir stöðuna. Að frátöldu fyrrnefndu láni er staðan reyndar ekki slæm því ýmislegt jákvætt er í pípunum hjá höfninni. En fyrst að víkjandi láninu
„Ef við förum yfir stóru myndina í rekstrinum þá er rekstur hafna Norðurþings í járnum og orsakast það fyrst og fremst af fjármagnsgjöldum sem reiknast ofan á víkjandi lán frá ríkissjóði sem var veitt á sínum tíma vegna uppbyggingar við stórskipahöfnina á Húsavík,“ sagði Eiður og útskýrði að ekki væri greitt af láninu fyrr en reksturinn skilar hagnaði en að á það reiknist hins vegar verðbætur. Lánið hækki því stöðugt.
„Grunnforsendur fyrir þessu láni á sínum tíma voru náttúrlega þær að verksmiðja PCC myndi tvöfaldast fljótlega eftir að hún var tekin í notkun og innan tíu ára yrði kominn annar stórnotandi á Bakka – sem jafnframt væri þá stórnotandi að stórskipahöfninni og myndi greiða veruleg gjöld til hennar. En þessar áætlanir hafa eins og við vitum ekki gengið eftir. Það er náttúrlega fullt af ástæðum, utanaðkomandi, sem hafa valdið því,“ sagði Eiður.
Lánið hækkar stöðugt
„Og því hækkar hið víkjandi lán stöðugt – og nú sem aldrei fyrr í þessu vaxtaumhverfi sem ríkir á landinu,“ undirstrikaði formaður hafnarsjóðs. „Þannig að við þurfum að leggja allt kapp á það á næstu misserum að leggja vinnu í það og að fá þetta lán afskrifað hjá ríkissjóði út af því að þetta mun að lokum valda því að bæði hafnarsjóður og móðurfélagið – það er Norðurþing – munu lenda í verulegum skuldavandræðum ef einungis reiknast á þetta verðbætur um ókomin ár og aldrei er greitt af því þar sem ekki er hægt að sjá fram á einhvern hagnað af hafnarmannvirkjum þegar þetta mun bara valda auknum fjármagnskostnaði.“
PCC keyrir á tveimur ofnum 2024
Eiður sagði þó að verulega jákvæð tíðindi væru að finna í fjárhagsáætlun hafnarsjóðs fyrir næsta ár.
„Þau eru á þá vegu að við gerum ráð fyrir að PCC muni keyra á tveimur ofnum á næsta ári og því gera áætlanir okkar ráð fyrir að vöru- og skipagjöld verið umtalsverð. Þetta er langstærsti liðurinn í okkar afkomu með höfnina. Vöru- og skipagjöld gætu orðið í kringum 190 milljónir króna í stað 100 eins og þau eru nú í ár þegar aðeins annar ofn verksmiðjunnar er keyrður,“ sagði Eiður.
Að því er Eiður sagði er rekstur PCC stóra breytan í rekstri hafna Norðurþings. Gert væri ráð fyrir að vöru- og skipagjöld verði yfir 50 prósent af tekjum hafnarsjóðs.
„Til gamans má geta í þessu að miðað við útkomuspá þessa árs þá eru fiskiskip hérna á Húsavík og í öðrum höfnum Norðurþings í kringum 8 til 10 prósent og ferðaþjónustubátar eða smábátar og skemmtibátar 12 prósent og skemmtiferðaskip í kringum 22 prósent. Þannig að menn sjá þá aðeins hver hlutföllin eru í þessu,“ benti formaður hafnarsjóðs á.