Hafrannsóknarstofnun miðar við að hefja loðnuleitarleiðangur 15. janúar ef veður leyfir. Auk rannsóknaskipanna Bjarna Sæmundssonar og Árna Friðrikssonar taka togararnir Ásgrímur Halldórsson SF og Polar Ammassak þátt í leiðangrinum.
„Fyrir fram gerum við ráð fyrir að hafa veiðiskipin í um sjö daga en erum með rannsóknarskipin á áætlun hjá okkur í 14 daga. En þessi yfirferð ætti ekki að taka það langan tíma, þetta gæti tekið viku til tíu daga,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.
Tólf rannsóknarmenn
Leiðangurinn verður með hefðbundnum hætti. „Hvert skip tekur sína leiðangurslínu. Við erum með tvo frá okkur í hvoru veiðiskipanna og þeir stjórna yfirferðinni,“ segir Guðmundur. Alls verði tólf rannsóknarmenn í skipunum fjórum auk áhafnanna.
Niðurstöður rannsóknaleiðangurs sem farinn var í desember gaf ekki tilefni til þess að gefa út ráðgjöf um veiði.
„Við fengum ágætis upplýsingar frá þessum leiðangri um það hvert loðnan væri komin. Það sýndi sig að það var lítið komið á Kolbeinseyjarhrygg og við náðum engan veginn yfir stofninn. Í ljósi þess ákváðum við að fara ekki af stað fyrr en um miðjan janúar,“ segir Guðmundur.
Niðurstaðan í desember var ekki óvænt. „Hún var hefðbundin miðað við undanfarin ár og gefur engin fyrirheit um það hvað við eigum eftir að mæla,“ segir Guðmundur.
Kvóti upp í skuld
Aðspurður segist Guðmundur reikna með að þrír til fjórir dagar líði eftir að leiðangrinum lýkur þar til Hafrannsóknastofnun geti gefið út ráðgjöf á grundvelli hans. „Við leggjum alla okkar vinnu í að klára þetta sem fyrst, vitandi það að menn bíða eftir endanlegu ráðgjöfinni,“ segir Guðmundur.
Þess má geta að ef gefinn verður út loðnukvóti eiga norsk og grænlensk skip forgangsrétt á fyrstu fjörutíu til fimmtíu þúsund tonnunum. „Við erum til dæmis í skuld við Norðmenn út af Smugusamningi“ segir Guðmundur.