Strandveiðimenn á svæðum A, B og C eru komnir í frí frá veiðum fram á nýtt kvótaár. Runólfur Kristjánsson á Grundarfirði gerir úr Vin SH til strandveiða og segir ný yfirstaðna vertíð eina þá lélegustu frá upphafi þrátt fyrir góða veiði. Lágt fiskverð standi í mörgum tilfellum ekki undir kostnaði við útgerðina. Níu Grundfirðingar tóku sig saman síðla sumars og létu flytja út fyrir sig einn gám af slægðum fiski til Grimsby. Mun hærra verð fékkst fyrir fiskinn með þessu móti en á innanlandsmarkaði.



„Ég var tvo mánuði á strandveiðum og afkoman af þessu er frekar léleg. Það er varla að menn sjái laun út úr þessu í mörgum tilvikum þegar fiskverð er svona lágt. Fiskkaupendur kenna háu gengi krónunnar og verði erlendis um þetta lága fiskverð. Í júlí var brunaútsala á fiskinum en svo skánar það og er orðið skaplegt fyrir verslunarmannahelgina, eða yfir 200 kr. kílóið.

Áhugi að endurtaka leikinn

Runólfur segir áhuga fyrir því að endurtaka leikinn á næstu vertíð og selja fiskinn beint úr landi.

„Við fengum frá 350 krónum og upp í 380 krónur fyrir kílóið af mjög blönduðum fisk sem við fluttum út sjálfir. Meðalverðið fór lægst hjá mér í 159 krónur kílóið á markaði innanlands í júlí en í síðasta róðri var meðalverðið komið upp í 258 kr. kílóið.“

„Það gæti verið í námunda við það sem við fáum fyrir fiskinn sem við seldum út þegar dreginn hefur verið frá kostnaður við útflutninginn. Kostnaðurinn hleypur á 80-100 krónum. Við þurfum að láta slægja í landi og svo bætist við frágangur á gámi, sölulaun, aflagjöld, flutningur og ýmiss annar tilfallandi kostnaður. Við fengum um 260 krónur fyrir smæsta fiskinn þegar dreginn hefur verið frá kostnaður – fisk sem við höfum verið að fá 130 krónir fyrir hérna heima. En okkur er reyndar sagt að verð á smæsta fiskinum sé mjög breytilegt og ekki alltaf hægt að ganga að svo góðu verði vísu.“

Runólfur segir engan vafa á því að beinn útflutningur af þessu tagi verði skoðaður aftur. Það ráðist þó auðvitað af fiskverði á Íslandi og erlendis hverju sinni. 15 bátar gerðu út á strandveiðar frá Grundarfirði og menn þar og einnig á Patreksfirði eru áhugasamir um að skoða þetta á næstu vertíð.