„Þeir eru fastir í ísnum og verða það og fara bara með flekanum eins og hann er,“ segir Hafþór Lyngberg Sigurðsson, formaður Snarfara, um nokkra skemmtibáta, sem nú eru frosnir fastir í höfn félagsins í Elliðaárvogi.
„Ástæðan fyrir að frýs svona auðveldlega í höfninni hjá okkur er sú að það er svo mikið vatn í yfirborðinu út af Elliðaánum, það leggur einfaldlega við fyrsta frost. Strax og það eru tvær til þrjár gráður þá byrjar að frjósa inni í horni þar sem stillan er og Elliðaárnar koma í gegnum grjótgarðinn,“ útskýrir Hafþór. Sífellt frjósi meira að vetrarlagi.
„Við verðum varir við meiri kulda núna á veturna,“ segir Hafþór og bætir við að hann viti ekki hvar hin hnattræna hlýnun sé stödd. „Við erum að slá hver frostametið á fætur öðru hér í Reykjavík, ár eftir ár.“
Lokað og opnað aftur
Varðandi það hvort þessi þróun sem Hafþór nefnir stytti ekki tímann sem hægt sé að nýta Snarfarahöfnina bendir hann á að höfninni hafi yfirleitt verið lokað yfir veturinn.
„Það eru bara síðustu ár sem við höfum verið með opið en höfninni var alltaf lokað 15. október og opnaði svo um vorið, í mars, apríl eða jafnvel í maí. Svo voru menn komnir með stærri báta og vildu vera lengur niðri og sigla lengur og þá var mönnum gefinn kostur á því,“ segir Hafþór.
Gallann segir Hafþór hins vegar vera þann að það hafi farið mjög illa með bryggjurnar, legufæri og annað að vera með fullar bryggjur þegar veður eru verri. „Við gáfumst upp á þessu og ákváðum að loka en svo vildu einhverjir vera niðri og það var tekin ákvörðun um það á síðasta aðalfundi að hafa eina bryggju opna yfir vetrartímann,“ segir hann.
Allt of mikið tjón
Tvær af bryggjunum eru lokaðar í vetur og segir Hafþór að þeim sé sleppt frá landi og þannig verði þær ekki fyrir tjóni. „Ef við værum með fullar bryggjur yfir veturinn þegar óveðrin eru verður álagið það mikið að þetta tjónast. Og við höfum orðið fyrir allt of miklu tjóni til þess að réttlæta að hafa þetta opið en núna var niðurstaðan að hafa opið lengur,“ lýsir Hafþór sinni skoðun.
„Ég hef ekkert lagt sérstakt mat á það hvort þetta sé hættulegt fyrir báta eða ekki. En ég hef að minnsta kosti ekki neina sérstaka löngun til þess að vera með báta niðri á þessum tíma og ég myndi ekki mæla með þessu,“ svarar Hafþór spurður hvort ísinn skemmi ekki bátana.
Fiskikarlarnir í land
Alls eru að sögn Hafþórs á bilinu 120 til 140 skemmtibátar, skútur og fiskibátar að sumarlagi í Snarfarahöfninni. Langflestir séu teknir upp og geymdir á athafnasvæði félagsins við höfnina. Örfáir séu fluttir í hús annað og svo séu félagsmenn að reisa skýli sem veiti skjól. Sem fyrr segir eru það allt skemmtibátar sem enn eru niðri. „Þetta eru menn sem telja að þeir ætli eitthvað að hreyfa bátana og nota þá. Fiskikarlarnir sem eru hjá okkur eru allir komnir á land,“ segir formaður Snarfara.