Samtök fiskverkenda og sölusamtök fiskimanna í Noregi (Norges Råfisklag) hafa komist að samkomulagi um nýtt lágmarksverð á þorski á vetrarvertíð. Lágmarksverðið lækkar um 1 til 1,25 krónur norskar allt eftir stærðarflokkum.
Í fréttatilkynningu frá (Norges Råfisklag) segir að
erfitt hafi verið að komast að niðurstöðu en samkomulagið endurspegli óvissu í efnahagslífi og spám um ástand í helstu markaðslöndunum.
Verð á þorski, slægðum og hausskornum, frá og með 9. janúar 2012 verður eftirfarandi:
Þorskur 6 kíló og stærri;17,25 krónur norskar á kíló (354 krónur íslenskar) og lækkar um 1,25 krónur.
Þorskur 2,5-6 kíló;14,50 krónur á kíló (297 krónur íslenskar) og lækkar um 1 krónu.
Þorskur 1-2,5 kíló; 12,50 krónur á kíló (256 krónur íslenskar) og lækkar um 1 krónu.
Hrogn seljast á 7 krónur kílóið að lágmarki (143 krónur íslenskar) og lækka um 1,50 krónur.
Lifur selst á 3 krónur á kíló (61 króna íslensk) og lækkar um 50 aura.
Rétt er að hafa í huga þegar ofangreind verð eru borin saman við þorskverð á Íslandi að íslenska þorskinum er landað með haus ólíkt því sem venja er í Noregi.