Útgerðarfélagið Deutsche Fischfang Union í Þýskalandi, dótturfélag Samherja, hefur samið við norsku skipasmíðastöðina Vard um smíði á skuttogara. Samningupphæðin er um 7,5 milljarðar króna. Sagt er frá þessu í Fiskeribladet í Noregi.
Skipið verður 84 metrar á lengd og 16,7 metrar á breidd og mun heita Berlin. Það kemur í stað samnefnds skips sem DFFU seldi til Rússlands.
34 í áhöfn
Aðstaða verður í skipinu fyrir 34 menn. Það verður útbúið til að draga þrjú troll. Lestarrými fyrir frosnar afurðir verður 2.200 rúmmetrar í tveimur lestum. Afhendingartími frá Vard í Brattvåg er áætlaður á fyrsta ársfjórðungi 2024. Skrokkurinn verður smíðaður í skipasmíðastöð Vard í Rúmeníu.
Skuttogarinn er hannaður í nánu samstarfi Vard og útgerðarinnar og verður fyrsti togarinn sem Vard smíðar eftir eigin teikningum fyrir þýska útgerð. Skipið á að uppfylla ítrustu kröfur um meðferð afla, skilvirkni og umhverfishæfni. Til að tryggja gæði afurða verður allur fiskur unninn um borð, pakkaður og frystur eða kældur. Allar aukaafurðir fara í sérbyggðan tank og farið með í land.
Meiri fullvinnsla
Í grein Fiskeribladet segir að togarinn verði með búnaði frá Vard sem tryggi góða meðferð aflans, þar með tönkum til að halda fiski ferskum fram að vinnslu og hátæknivæddum fiskvinnslubúnaði.
„Nýja skipið gerir okkur kleift að taka aflann óskertan á land sem opnar fyrir meiri fullvinnslu og aukna verðmætasköpun. Aðbúnaður fyrir áhöfn verður einstök og skipið verður búið nýjasta tæknibúnaði sem völ er á í þessari grein,“ segja Baldvin Þorsteinsson og Samuel Ortega, forsvarsmenn DFFU. Baldvin er sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, stofnanda og forstjóra Samherja.