Fyrirtækin sem buðu í smíðina eru öll frá Spáni. Lægsta boð átti Astileros Armon Vigo skipasmíðastöðin en tilboðið hljóðar upp á 4,8 milljarða króna (33,4 milljónir evra.)

Tilboð bárust einnig frá Consturcciones Navales P. Freirie og Gondan en tilboð þeirra eru nokkuð hærri eða 5,1 og 5,6 milljarðar króna.

Eins og Fiskifréttir sögðu frá í desember eru skipasmíðastöðvarnar sem buðu í smíðina allar með umsvif sín á Norður-Spáni, þ.e. Astileros Armon í Vigo, Construcciones Navales og Gondan. Þær búa allar yfir langri hefð í smíði rannsóknaskipa og teljast vera sérhæfðar í slíkum skipum. Armon skipasmíðastöðin hefur einmitt nýverið afhent útgerðarfélaginu Nesfiski nýjan togara, Baldvin Njálsson, sem smíðaður var eftir teikningum Skipasýnar.

Nýtt rannsóknaskip mun leysa Bjarna Sæmundsson af hólmi, sem smíðaður var árið 1970, og mun gerbreyta og bæta aðstöðu til rannsókna. Nýja skipið mun eins og það eldra bera nafn náttúrufræðingsins Bjarna Sæmundssonar.