Sjávarklasinn er á leið til Síle til þess að kynna hvernig klasinn liðsinnir þjóðum í að nýta betur fisk; að henda engu. Þetta segir Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, sem heldur utan til Síle á morgun.
„Við erum mjög spennt að kynna klasann í Suður-Ameríku. Við munum í fyrsta sinn sýna nýja mynd af því hvað er að gerast með laxinn hérlendis,“ segir Þór sem kveðst munu kynna hugmyndafræði Sjávarklasans í helstu eldisborgum Síle og í höfuðborginni Santiago.
„Okkur gefst þar líka tækifæri að kynna tæknifyrirtækin, bæði risana okkar eins og Marel en einnig minni sprota sem eru eða munu leggja heiminn að fótum sér með tækninýjungar eða vörur úr hliðarafurðum,“ segir Þór.
Langt í land með laxinn en tækifærin mörg
Að sögn Þórs finna menn hér nú fyrir afar miklum áhuga erlendis á því sem Íslendingar séu að gera varðandi fullnýtingu. „ Þeir hafa mikinn áhuga á því sem við erum að pæla í,“ segir hann.
Í ferðinni til Síle verði kynnt verði hvað Íslendingar sú að gera við þorskinn og allan hvítfiskinn og ekki síður laxinn þar sem mjög margt sé að gerast. „Við erum að ná forystu þar líka. Þó að það sé langt í land við höfum tækifæri þar og við eigum sömuleiðis forystu í rækjunni með Genís og Primex. Þannig að þessi saga okkar er að verða mjög þétt,“ segir Þór.