Þann 21. september var haldinn kynningarfundur í sendiráði Íslands í London fyrir kaupendur íslenskra sjávarafurða í Bretlandi. Yfirskrift fundarins var Iceland Responsible Fisheries Workshop. Það voru Íslandsstofa, Ábyrgar fiskveiðar og sendiráðið í London sem stóðu að fundinum en þetta er í fimmta sinn sem slíkur fundur er haldinn með kaupendum.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn og lagði áherslu á að fiskveiðistjórn Íslands byggði á sjálfbærum viðmiðunum og sagði hann að vegna þessa væru fiskistofnar á Íslandsmiðum í góðri stöðu. Greinin legði áherslu á gæði, aukna verðmætasköpun og ábyrgar fiskveiðar.
Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri nytjastofnasviðs hjá Hafrannsóknastofnun fór ítarlega yfir rannsóknir og ráðgjöf stofnunarinnar sem veitir ráðgjöf um veiði á 35 tegundum í hafinu. Þá flutti Hrefna Karlsdóttir verkefnisstóri hjá Ábyrgum fiskveiðum kynningu á vottun undir merkjum Iceland Responsible Fisheries og því starfi sem nú fer fram við svokallað "benchmarking" á vottunarprógrömmum undir regnhlíf GSSI (Global Sustainable Seafood Initiative). Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri SFS, sem stjórnaði fundinum, tók saman niðurstöður og nefndi að íslenskur sjávarútvegur treysti á vísindarannsóknir til að geta byggt upp greinina til framtíðar og að verðmæti afurðanna skiptu miklu máli.