Fiskifréttir halda áfram að gramsa í talnagögnum Fiskistofu til að skoða þróun kvótahlutdeildar, allt frá árinu 1991 til ársins í ár. Miðað er við fiskveiðiárið 1991-1992, því það er fyrsta heila fiskveiðiárið eftir að þær breytingar voru gerðar á kvótakerfinu að framsal aflaheimilda var leyft í fyrsta sinn.
Síðan eru liðin 27 ár og aflaheimildir hafa verið seldar milli útgerðarstaða í þó nokkrum mæli, með misjöfnum afleiðingum fyrir bæjarfélögin eftir því hvort kvótahlutdeild þeirra hefur aukist eða minnkað.
Þegar staðan árið 1991 er borin saman við stöðuna í dag hafa breytingarnar á kvótahlutdeild orðið hlutfallslega mestar á Rifi og Grenivík annars vegar, Súðavík og Hrísey hins vegar.
Rif hefur meira en fimmfaldað kvótahlutdeild sína frá árinu 1991, og munar þar mest um mikil umsvið Brims hf. Grenivík er ekki langt á eftir með hátt í fimmfalda aukningu og Garður kemur næst og hefur ríflega þrefaldað sína hlutdeild.
Þarna sést einnig að Súðavík og Hrísey hafa misst alla kvótahlutdeild sína, eða svo gott sem, og Bíldudalur, Blönduós og Húsavík hafa misst meira en 90 prósent af kvóta sínum.
Á svipuðu róli
Aftur á móti er Stöðvarfjörður nú með nánast nákvæmlega sömu kvótahlutdeild og árið 1991, þótt bærinn hafi tvívegis misst nánast allan kvóta sinn á tímabilinu. Staðan er sömuleiðis svipuð á Skagafirði og í Stykkishólmi, sem hafa eilítið minni kvóta nú en þá, en bæði Seyðisfjörður og Raufarhöfn hafa aukið lítillega við sinn kvóta.
Hvað varðar Rif sérstaklega þá var bærinn með 0,69 prósent heildarkvótaúthlutunar landsins á fiskveiðiárinu 1991 til 1992, en hlaut við síðustu úthlutun nú í september 2018 4,39 prósent heildarkvótans. Rif hefur því bætt við sig 3,7 prósentum heildarkvótans á tímabilinu, en það samsvarar sem fyrr segir ríflega fimföldun kvótahlutdeildar bæjarfélagsins.
Á hinn bóginn er það Grindavík sem hefur bætt við sig mestum kvóta, eða 6,34 prósentum heildarkvótans. Grindavík er nú með 10,95 prósent heildarkvótans en var árið 1991 með 6,34 prósent.
Þrír staðir með þriðjung kvótans
Aðeins Reykjavík er með meiri kvóta en Grindavík, alls 11,58 prósent heildarkvótans, og hefur á tímabilinu bætt við sig nærri tveimur prósentum. Vestmannaeyjar eru svo í þriðja sæti yfir kvótahæstu hafnir landsins, með 10,61 prósent og hafa bætt við sig rétt rúmlega tveimur prósentum á tímabilinu.
Samtals eru þessir þrír útgerðarstaðir, Reykjavík, Grindavík og Vestmannaeyjar, með um þriðjung allra fiskveiðiheimilda landsins.
Þegar skoðuð er þróun kvótahlutdeildar þeirra tveggja útgerðarstaða, sem eru efst og neðst á þessum lista, nefnilega Rifs og Súðavíkur, þá fyrstu árin var hlutdeild þeirra beggja áþekk. Rif var með um 0,7 prósent fiskveiðiárið 1991-1992 og var komið upp í rétt rúmlega eitt prósent fimm árum síðar, 1996-1997.
Þess ber að geta að í þeim tölum sem hér er stuðst við er þeim höfnum sleppt sem höfðu minna en 0,5 prósent heildarkvótans bæði í upphafi tímabilsins og í lok þess.
Fiskifréttir hafa áður birt upp úr tölum Fiskistofu samantektir af svipuðu tagi, meðal annars um breytingar á stöðu Vestfjarða og einstakra hafna á Vestfjörðum .