Margir telja sig hafa orðið fyrir barðinu á stjórnvaldinu. Í þeim hóp er Eymar Einarsson, sjómaður frá Akranesi, sem hefur gert út krókaaflamarksbátinn Ebba AK. Það er þó lítið um sjóferðir þessa dagana enda var kvótinn búinn fyrir sumarbyrjun.
Eymar kann þessu illa því hann hefur allan sinn starfsferil sótt sjóinn en honum hefur verið settur stóllinn fyrir dyrnar á mörgum sviðum
„Ég stundaði alltaf grásleppuog lúðuveiðar á sumrin. Það fóru fimm til sex mánuðir í það á ári og dugði til að halda mér á floti ásamt kvótanum,“ segir Eymar sem hóf lúðuveiðar árið 1974. Í janúar 2012 gekk í gildi ótímabundið bann við lúðuveiðum og þar sem lúða hafði ekki verið kvótasett sá sjávarútvegsráðuneytið ekki ástæðu til að taka til skoðunar að greiða þeim bætur sem höfðu stundað þessar veiðar. Eymar hafði verið atkvæðamikill í þessum veiðum en þeim var kippt undan honum með banninu sem nú hefur staðið í bráðum þrettán ár.
„Upphaflega stóð til að banna lúðuveiðar í tíu ár. Lúðan er flökkufiskur og fiskur sem hefur verið merktur hér hefur veiðst bæði við Noreg og Kanada. Það eru lítil vísindi að baki þessu lúðuveiðibanni.“
Sæbjúgun kvótasett
Um það leyti sem bannað var að veiða lúðu fór Eymar í fyrsta sinn að veiða sæbjúgu fyrir vestan land og hafði hann stundað þær veiðar einna lengst allra, eða í um sjö ár. Það sem hefur breyst er að sæbjúgu voru kvótasett í fyrra og var miðað við aflareynslu fiskveiðiárin 2018/2019, 2019/2020 og 2020/2021. Eymar hafði veitt allt upp í 700 tonn af sæbjúgum á ári áður en tegundin var kvótasett.

„Síðasta viðmiðunarárið 2020/2021 var Covid 19 faraldurinn og innlendu kaupendur sæbjúgnanna vildu ekki að ég veiddi og gáfu upp þá ástæðu að það væri birgðasöfnun hjá þeim. Þeir stunda sjálfir veiðar á sæbjúgum og vissu vel að þetta ár yrði tekið með inn í útreikninginn um veiðireynslu. Mig vantar því alveg eitt ár inn í þetta og fékk úthlutað hungurlús, um 150 tonnum. Auk þess höfðu allir veitt með tveimur plógum fyrri tvö viðmiðunarárin þótt það væri bannað nema ég og einn annar aðili. Sanngjarnara hefði verið að deila hlutdeildinni niður á plóg,“ segir Eymar.
Hann hafði keypt grásleppuveiði af öðrum bát en samkvæmt ákvörðun Fiskistofu var honum meinað að nýta þetta leyfi á Ebba AK.
Ekki fræðilegur möguleiki
„Á viðmiðunarárunum upphaflega fékk ég úthlutað 100 tonnum af þorski og 160 tonnum af ýsu. Í ráðherratíð Þorsteins Pálssonar var niðurskurðurinn með þeim hætti að ég var kominn niður í 24 tonn af þorski og 120 tonn af ýsu. Þrátt fyrir ýsukvótann var ekki fræðilegur möguleiki að láta þetta ganga upp. Ég keypti 76 tonna þorskkvóta og var þá kominn aftur upp í 100 tonn í þorski. Staðan hjá mér núna er sú að ég er núna með 78 tonn af þorski og allur sá kvóti sem ég keypti er horfinn í skerðingunum,“ segir Eymar.
Hann segir að búin hafi verið til átta kerfi í kringum fiskveiðar við landið og það nýjasta sé strandveiðikerfið. Þá hafi verið búinn til byggðakvóti, sértækar aðgerðir í byggðakvóta og byggðastofnunarkvóti í viðbót við þessi átta kerfi.
Selja frá sér kvóta og fara á strandveiðar
„Flestir þeirra sem eru á strandveiðum núna hafa að minnsta kosti einu sinni selt frá sér veiðiheimildir, bæði úr krókaaflamarkskerfinu og stóra kerfinu,“ fullyrðir Eymar.
Hann segir að svo hefjist árlegur söngur um aukningu inn í strandveiðikerfið á sama tíma og einyrkjar eins og hann séu skertir.
„Eins og ég segir er stór meirihluti þeirra sem stunda strandveiðar menn hafa selt frá sér veiðiheimildir. Þetta eru menn sem eiga sína báta skuldlausa. Ungir menn sem þetta kerfi var upphaflega hugsað fyrir eiga ekki séns. Það er engin nýliðun. Yfir 90% þeirra sem eru á strandveiðum hafa áður selt frá sér veiðiheimildir,“ segir Eymar og er heitt í hamsi.
Eymar segist aldrei hafa upplifað aðra eins fiskgengd og í vetur og hefur hann þó stundað sjóinn í allmörg ár. Í janúar fór hann á netaveiðar og lagði fjórar trossur. Næsta dag voru netin orðin full af fiski og þurfti að millilanda 10 tonnum og sækja seinni tíu tonnin að löndun aflokinni. Vegna kvótaleysis voru einungis farnir fáeinir róðrar í janúar og febrúar og 3-4 daga í mars. Heildarkvótinn kláraðist á 19 dögum og nú er báturinn verkefnalaus.