Evrópusambandið mun gera það skilyrði við upptöku nýs fiskveiðistjórnunarkerfis árið 2013 að aflaheimildir verði framseljanlegar samkvæmt drögum sem vitnað er í á vef BBC .
Heimilt verður að framselja aflaheimildir á milli einstakra aðildarríkja sambandsins að fengnu samþykki hlutaðeigandi stjórnvalda. Samkvæmt drögunum verða aflaheimildir bundnar við einstök skip til að minnsta kosti 15 ára.
Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ segir í viðtali á vef samtakanna það óneitanlega vekja athygli að á sama tíma og þessar hugmyndir ESB séu að koma fram skuli íslensk stjórnvöld leggja fram hugmyndir sem ganga í þveröfuga átt með takmörkunum á framsali aflaheimilda og síðan algjöru banni þess eftir fimmtán ár.
„Það er ánægjulegt að sjá metnaðarfullar hugmyndir í fiskveiðistjórn innan ESB. Reynslan sýnir okkur hins vegar að þótt góðar hugmyndir komi fram af og til verða fæstar þeirra að veruleika. Þess vegna er ástandið í fiskveiðimálum Evrópusambandsins eins og það er," segir Adolf.