Norsk stjórnvöld hafa gefið út að aflaheimildir á Barentshafsþorski dragist saman um 25% á næsta ári. Áður hafði norsk-rússneska sjávarútvegsnefndin sem skipuð er sérfræðingum á sviði hafrannsókna mælt með að niðurskurðurinn yrði 31%.
Með 31% niðurskurði hefði heildarkvótinn í Barentshafsþorski orðið 311.500 tonn á næsta ári en með inngripi stjórnvalda verður kvótinn 340.000 tonn. Þar af verður hlutur Norðmanna 163.436 tonn sem er minnsti þorskkvóti þeirra í Barentshafi frá árinu 1991.
Ákvörðunin byggir á samkomulagi Norðmanna og Rússa í sjávarútvegsmálum og segir Marianne Sivertsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, að hún endurspegli þær einstöku aðstæður sem blasi við í Barentshafi nú um stundir.
Samkomulag þjóðanna felur í sér að heildarkvóti í þorski verður 340.000 tonn sem verður deilt milli Norðmanna og Rússa og þriðju þjóða samkvæmt sömu reglum og gilt hafa undanfarin ár. Hlutur Norðmanna verður 163.436 tonn.
Heildarkvóti í ýsu verður 130.000 tonn og hlutur Norðmanna verður 65.468 tonn. Heildarkvóti í grálúðu verður 19.000 tonn og 67.000 tonn í djúpkarfa. Engar loðnuveiðar verða heimilaðar á árinu 2025.