Meðalverð á leigukvóta þorsks á síðasta ári var hærra en verð á slægðum þorski í beinum viðskiptum milli fiskiskipa og fiskvinnslu frá aprílmánuði og út árið. Einungis á fyrstu þremur mánuðum ársins var kvótaverðið lægra, að því er fram kemur í Fiskifréttum.

Mestur var munurinn í septembermánuði þegar þorskverð í beinum viðskiptum var 167 krónur kílóið en leigukvótaverð 265 krónur. Kvótaverðið var sem sagt 59% hærra en fiskverðið. Rétt er að hafa í huga, þegar þessi samanburður er skoðaður, að þorskkvóti var illfáanlegur þegar leið á síðasta ár og hafði það sín áhrif á gangverðið.

Meðalverð á þorski á fiskmörkuðunum var hins vegar hærra en kvótaverðið í öllum mánuðum í fyrra. Minnstur var munurinn í maímánuði eða 14 kr/kg en mestur í nóvember eða 76 kr/kg.

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.