Nýtt fiskveiðiár hefst í dag, 1. september. Fiskistofa hefur úthlutað 281 þúsund tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 261 þús. tonn á sama tíma í fyrra, reiknað á þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð.

Aukninguna má að mestu rekja til aukinnar úthlutunar í þorski og gullkarfa auk þess sem síld er úthlutað nú, en ekki var búið að gefa út leyfilegan heildarafla í síld á sama tíma í fyrra.

Alls fá 612 skip úthlutað aflamarki á nýbyrjuðu fiskveiðiári samanborið við 637 skip fiskveiðiárið 2010/2011.
Mest fer til Kaldbaks EA 1 sem gerður er út frá Akureyri , um 8.200 þorskígildistonn eða 2,9% af úthlutuðum þorskígildum.