Vestfjarðarstofa segir Patreksfjörð vera þá höfn sem verst komi út í kvótasetningu á grásleppu sem tók gildi 1. september í haust.

Frá þessu greinir Bæjarins besta á Ísafirði sem kveður þetta koma fram í minnisblaði Vestfjarðastofu sem lagt var fyrir stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga fyrir jól.

Í umfjöllun Bæjarins besta segir að á árinu 2023 hafi verið landað 991 tonni af grásleppu á Vestfjörðum að verðmæti 233 milljónum króna.

Viðmiðunartímabilið skiptir sköpum

„Það voru 26 bátar sem lönduðu grásleppu á Vestfjörðum á síðustu vertíð. Það eru tvö svæði sem skera sig úr en flestir bátar gera út á grásleppu frá Drangsnesi og Hólmavík samtals 10 bátar og svo Brjánslækur og Patreksfjörður með 10 báta. Á norðanverðum Vestfjörðum voru 6 bátar sem gerður út á grásleppu,“ er vitnað á bb.is til minnisblaðs Vestfjarðastofu. Viðmiðunartímabilið við ákvörðun á kvóta skipti sköpum.

Strandir hafa verið stöðugar og halda sínu

„Strandir, þar sem grásleppuveiðar hafa verið nokkuð stöðugar í gegnum tíðina, halda sínu hlutfalli á heildina litið. Patreksfjörður er aftur á móti sú höfn sem kemur verst úr kvótasetningu, einmitt sú höfn þar sem vöxtur hefur verið í lönduðum afla undanfarin ár. En vegna þess að tímabil veiðireynslunnar nær ekki þessum vexti þá hljóta nýliðarnir á Patreksfirði skarðan hlut frá borði. Þeir sem hófu veiðar árin 2023 og 2024 eru ekki taldir sem nýliðar en einmitt þau ár jókst landað magn á Patreksfirði hvað mest. Það var 6,1 prósent árið 2023 af afla ársins en áætlað er að kvótinn við úthlutun í ár verði aðeins 2,3 prósent,“ segir í frétt Bæjarins besta þar sem nánar er fjallað um málið.