Heimilt verður að veiða um 214,4 þúsund tonn af þorski, 38 þúsund tonn af ýsu, 57 þúsund tonn af ufsa og 52 þúsund tonn af gullkarfa, á næsta fiskveiðiári samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heildarafla kvótabundinna fisktegunda fyrir fiskveiðiárið 2013/2014.

Ákvörðun fyrir stofna er lúta veiðistýringu með aflahlutdeild er nú í reynd sú hina sama og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Leyfilegur heildarafli eykst í þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, þykkvalúru, sólkola, síld og löngu. Heildaraflinn stendur í stað eða lækkar lítillega í öðrum tegundum. Áætluð áhrif ákvörðunar um heildarafla er um 15 milljarða aukning á útflutningsverðmætum sjávarafurða. Þetta samsvarar um það bil 2,4% aukningu í útflutningsverðmætum vöru frá landinu að öðru óbreyttu.

„Almennt ástand fiskistofna á Íslandsmiðum verður að teljast býsna gott og jafnvel öfundsvert samkvæmt nýjustu ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar. Sú stefna hefur verið mörkuð um árabil að fylgja svo sem kostur er vísindalegri ráðgjöf og má fullyrða að það sé meginástæða þessa góða árangurs. Um þessa stefnu hefur verið vaxandi samstaða í þjóðfélaginu og ekki síst meðal flestra hagsmunaaðila,“ segir í frétt frá sjávarútvegsráðherra.

Sjá nánar http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/utgafa/frettir/nr/7678