Tvær karfategundir veiðast aðallega á Íslandsmiðum, gullkarfi og djúpkarfi. Til þessa hefur ekki verið gerður greinarmunur á karfategundum við kvótaúthlutun. Skip hafa getað ráðið því hvora tegundina þau veiða upp í úthlutaðan karfakvóta.
Breyting varð á þessu fyrirkomulagi við úthlutun karfakvóta á fiskveiðiárinu sem er nýhafið. Þá var úthlutað sérstaklega aflamarki í báðum tegundum. Úthlutað var 30 þúsund tonnum í gullkarfa og 10 þúsund tonnum í djúpkarfa í samræmi við leyfilegan heildarafla hvorrar tegundar fyrir sig.
Í djúpkarfa fengu 68 skip úthlutað aflamarki, allt frá rúmum 846 tonnum niður í 347 kg, að því er fram kemur á vef Fiskistofu. Öll skip sem fengu úthlutað aflamarki í djúpkarfa eru jafnframt með aflamark í gullkarfa. 421 skip fengu úthlutað þeim 30.000 tonnum sem til ráðstöfunar eru í gullkarfa.