Þegar illviðri mikið skall snögglega á Halamiðum dagana 7. til 8. febrúar 1925, fórust tveir togarar með samtals 68 mönnum. Þetta voru Leifur heppni með 33 Íslendingum og enska skipið Field-Marshal Robertson með 29 Íslendingum og sex Englendingum. Einn þessara Englendinga var Fred Bartle, 1. vélstjóri.

Egill Þórðarson, fyrrverandi loftskeytamaður, sem rannsakað hefur þessa atburði og fleiri skipsskaða hér við land, segir að á allra heilagra messu 1926 hafi Hafnarfjarðarkirkju verið afhentur minningarskjöldur um áhöfn Field Marshall Robertson sem gerður hafi verið út frá Hafnarfirði ásamt fleiri togurum Helliersbræðra frá Hull.

„Á skildinum eru nöfn allra 29 Íslendinganna og sex Breta sem voru um borð. Skipið sigldi undir breskum fána og þess vegna var bresk siglingaáhöfn; skipstjóri, tveir stýrimenn, tveir vélstjórar og kokkur um borð auk íslenskrar fiskiáhafnar. Það fylgdi með ákveðin ósk um að skjöldurinn mundi hanga uppi í Hafnarfjarðarkirkju,“ segir Egill.

Óðinn bjargaði frændanum

Í mars í fyrra 2024 kom að sögn Egils tölvupóstur til Hafnarfjarðarkirkju frá Michael Bartle stýrimanni og Steven Bartle vélstjóra bróður hans þar sem þeir sögðust mundu verða á Íslandi 5. til 8. febrúar 2025. Þeir hafi spurt hvort kirkjan yrði opin því þeir vildu heimsækja kirkjuna og skoða minningarskjöldinn sem heiðraði minningu langafa þeirra Fred Bartle sem fórst með Field Marshall Robertson.

„Ég hef verið í sambandi við bræðurna síðan fyrir hönd kirkjunnar,“ segir Egill. Fljótlega hafi verið ákveðið að þeir kæmu um borð í gamla varðskipið Óðin auk þess að heimsækja kirkjuna. „Óðinn var þeim einnig hugstæður eins og flestum sjómönnum og sjómannafjölskyldum í Hull, en sérstaklega vegna þess að frændi þeirra var einn af þeim sem Óðinsmenn björguðu af Notts County í febrúar 1968.“

Sameiginlegar minningar

Michael og Steven komu um borð í  Óðin fimmtudaginn 6. febrúar. Þar segist Egill ásamt Vilberg Magna Óskarssyni, fyrrverandi skipherra á Óðni og formanni hollvinasamtaka varðskipsins hafa tekið á móti þeim ásamt um 25 síðutogaramönnum úr félaginu. „Þar var einnig Agnar Jónsson skipasmiður en hann hefur unnið kort með staðsetningum 150 breskra togara sem farist hafa við Ísland. Í þeim slysum hafa um 800 manns farist,“ segir Egill. Með Agnari hafi verið Guðjón Ingi Hauksson sem vann grafísku vinnuna í kortum Agnars.

„Þetta var einstaklega notaleg samkoma þar sem bræðurnir voru fljótir að falla inn í hóp starfsfélaga sinna og margar sameiginlegar minningar að spjalla um. Í lokin hvatti ég Íslendingana til að koma í Hafnarfjarðarkirkju daginn eftir en vissi ekki við hverju mætti búast,“ segir Egill sem mætti sjálfur í kirkjuna ásamt Vilbergi Magna og bræðrunum tveimur.

„Þar voru þrír prestar og organistinn og fljótlega fór togaramennina að drífa að, 45 manns í allt.  Síra Þorvaldur Karl Helgason stýrði stuttri athöfn þar sem hann sagði bræðrunum stuttlega frá skildinum og minningarathöfnum vegna slyssins,“ segir Egill.

Þeir Michael og Steven hafi lagt fram ankeri með blómaskreytingu. „Þeir kveiktu á kerti til minningar um hina látnu. Að lokum var sunginn sálmur,“ segir Egill.

Minningarstund í Hafnarfjarðarkirkju. MYND/BENEDIKT ELÍNBERGSSON

Ánægjuleg stund

Síðan hafi verið haldið í safnaðarheimilið Strandberg þar sem sett hefur verið upp að nýju sýning um F. M. Robertson og Halaveðrið sem hann vann ásamt séra Þorvaldi Karli árið 2020, þegar 95 ár voru liðin frá slysinu. Gestirnir þáðu kaffiveitingar í boði kirkjunnar.

„Þetta var að sama skapi mjög ánægjuleg stund og var ekki annað að heyra en þeir bræður væru ánægðir með veru sína,“ segir Egill.

Egill segir að síðan hafi hinn síungi Markús Alexandersson tekið að sér að koma þeim bræðrum á hótelið í Reykjavík með viðkomu á Hrafnistu, Dvalarheimili aldraðra sjómanna, í Laugarási.

Rætt verður við Michael Bartle í Fiskifréttum í næstu viku.

Fengu kort yfir skipsskaða

Þegar þeir Michael og Steven Bartle voru um borð í Óðni flutti Egill Þórðarson ávarp þar sem hann sagði vel við hæfi að Agnar Jónsson, skipasmiður á eftirlaunum og fyrrverandi leiðsögumaður í varðskipinu, afhenti bræðrunum tvö kort með staðsetningum 150 breskra togara sem fórust við Ísland á árunum 1894 til 1975.

Michael og Steven Bartle ásamt Agnari Jónssyni sem afhendi þeim kort yfir breska  togara sem fórust við Ísland  frá 1894 til 1975. MYND/EGILL ÞÓRÐARSON
Michael og Steven Bartle ásamt Agnari Jónssyni sem afhendi þeim kort yfir breska togara sem fórust við Ísland  frá 1894 til 1975. MYND/EGILL ÞÓRÐARSON

„Samkvæmt rannsóknum Agnars hafa 725 menn látið lífið með 36 af þessum skipum, hann er þess þó meðvitaður að það vantar tölu látinna með fimm skipum. Ef við gerum ráð fyrir að þessir fimm togarar hafi farist með manni og mús þá er tala látinna nærri 800 manns. Þessi tala er á engan hátt lokaniðurstaða, til þess þarf frekari rannsóknir,“ sagði Egill meðal annars í ávarpi sínu.

Agnar hefur einnig rannsakað skipstöp annarra þjóða hér við land.

„Í mars á síðasta ári, það er 2024, fórum við til Þórshafnar í Færeyjum þar sem Agnar afhenti færeyskum vinum okkar svipuð kort sem merktir voru á 73 færeyskir skipsskaðar við Ísland, þar sem 503 menn létust,“ sagði Egill um borð í Óðni.

Að auki hafi Agnar fundið út eftir frönskum heimildum að 400 franskar gúlettur hefðu farist við Ísland og með þeim fjögur þúsund manns á tímabilinu 1850 til 1935. „Fyrri tíma heimildir eru óáreiðanlegar. Við vitum þó að mannskaðar og vinnuaðstæður þessara manna voru skelfilegar, sé miðað við aðstæður í dag.“