Við síðustu úthlutun byggðakvóta til Dalvíkurbyggðar í fyrra dróst kvótinn saman um tæp 62 prósent, fór úr 245 tonnum í 94 þorskígildistonn. Byggðarráð Dalvíkurbyggðar er ósátt og ætlar með málið fyrir Umboðsmann Alþingis.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir sveitarfélagið telja atvinnuvegaráðuneytið hafa brotið gegn ákvæðum reglugerðar með úthlutuninni.

„Við höfum ekki getað skilið hvernig þau fengu þessa niðurstöðu og finnst þau ekki hafa rökstutt það að þau hafi mátt gera þetta. Ég veit að í grunninn varð heildarúthlutunin minni og það hefur áhrif á allar úthlutanir til byggðarkjarna en við teljum samt að þau hafi ekki mátt gera þetta gagnvart byggðarkjörnum sem eru með færri en fjögur hundruð íbúa,“ segir Eyrún.

Samdráttur samkvæmt reglugerð segir ráðuneytið

Byggðarráð Dalvíkurbyggðar samþykkti í febrúar síðastliðnum að óska skýringa frá atvinnuvegaráðuneytinu. Ef ekki bærust svör eða óásættanleg röksemdafærsla yrði sett fram kvörtun til Umboðsmanns Alþingis. Eftir talsverða eftirgangsmuni Eyrúnar síðan þá svaraði ráðuneytið loks með bréfi 12. ágúst. Að því fengnu ákvað byggðarráðið að leitað yrði til umboðsmanns.

Í bréfi ráðuneytisins er rakið að heildarkvótaúthlutun milli ára hafa dregist saman um 21 prósent. Þessi samdráttur í ráðstöfun milli ára, til viðbótar við reiknireglur sem stuðst sé við samkvæmt reglugerð um úthlutun byggðakvóta, valdi því að úthlutun til Dalvíkur lækki um 44 tonn og um 107 tonn til Árskógssands en að úthlutun Hauganess sé óbreytt. Árið á undan fékk Dalvík 65 tonn og Árskógssandur 165 tonn þannig að lækkun á síðarnefnda staðinn er mjög mikil og voru aðeins 58 tonn sett þangað.

Útgerðum blæðir segir bæjarstjórinn

Nú er um hálft ár frá því Dalvíkurbyggð ákvað að óska skýringa frá ráðuneytinu og kvótaárið senn úti. Eyrún segir engu að síður verða kvartað til umboðsmanns.

„Auðvitað verðum við að láta á þetta reyna þegar við teljum að þetta sé ekki rétt unnið. Þeir skýra alls ekki vel hvernig þeir reikna þetta út og hvernig þeir leyfa sér að lækka þetta byggðarlag svona niður,“ segir Eyrún. Þetta höggvi mest í Árskógssand.

„Þeir sem gera út þaðan hafa miklar áhyggjur af því að þeir gerðu ráð fyrir þessum kvóta,“ segir Eyrún. Áhrifin af þessari ákvörðun, sem ekki hafi verið fyrirséð, séu þegar komin fram á Árskógssandi. „Það er einfaldlega samdráttur og menn gera út miklu skemur. Þetta mun jafnvel hafa þau áhrif að sumar útgerðir hreinlega hætta.“