„Það er bara rólegt. Það er tonn á tímann á daginn, ýsa og þorskur, og hálft tonn af sama blandi á tímann á nóttunni,“ segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri Helgu Maríu RE 1.

Þegar rætt er við Heimi er hann í Reykjarfjarðarál, djúpt úti af Húnaflóa.

„Það er búið að vera svoddan djöfulsins veðravíti allan túrinn, stórlægðir á hverjum einasta degi – og fleiri að koma. Þær eru alveg á færibandi,“ lýsir Heimir aðstæðum. Og ekki sé von á betra.

Ófært til Reykjavíkur

Í vinnslunni í Helgu Maríu RE 1 í gær.  MYND/HEIMIR GUÐBJÖRNSSON
Í vinnslunni í Helgu Maríu RE 1 í gær. MYND/HEIMIR GUÐBJÖRNSSON

„Það er alveg ófært fyrir okkur að fara heim á fimmtudag til Reykjavíkur, það verður kolvitlaust veður á miðvikudagskvöldið og á fimmtudaginn fyrir sunnan. Þannig að við löndum í hádeginu á morgun [í dag, miðvikudag] á Sauðárkróki. Svo förum við bara aftur út og krossleggjum fingur að þetta fari nú aðeins að linast þetta andskotans veður,“ segir Heimir.

Veiðin var róleg í Reykjarfjarðarálnum en Heimir segir að hún hafi verið góð fyrir vestan síðastliðinn sunnudag. 

„Á Þverálshorninu og í Heiðardalnum sem er norður af Halanum fengum við góða veiði af þorski. En þá var komið vitlaust veður og við flúðum hingað,“ segir hann.

Engar loðnutorfur á mælum

Heimir segir lítið hafa sést af loðnu í túrnum sem hófst þegar Helga María lagði upp frá Reykjavík í hádeginu síðastliðinn föstudag.

„En þegar við vorum í Heiðardalnum sem er djúpt vestur af Ísafjarðardjúpi, norðan við Halann, á Þverálshorninu, þá vorum við að sjá loðnu inni í fiskinum. Hún var ýmist ný og fersk og nýétin eða farin að meltast svolítið. En við vorum ekki að sjá neitt að gagni á dýptarmæli, ekkert sem talandi er um. Við sáum engar loðnutorfur eða loðnu ánetjaða í trollinu,“ svarar Heimir spurður um loðnuna.

Líka vont veður í gamla daga

Útsýnið úr brúnni á Helgu Maríu RE í gær. Mynd/Heimir Guðbjörnsson
Útsýnið úr brúnni á Helgu Maríu RE í gær. Mynd/Heimir Guðbjörnsson

Að sögn Heimis var skítabræla strax þegar túrinn hófst og menn hafi verið að rifja upp hvernig hlutirnir voru áður fyrr.

„Það var nú líka svona kolvitlaust veður í gamla daga, menn eru bara svo fljótir að gleyma og eru á stærri og betri skipum,“ segir Heimir. Í þeim sunnan og suðvestan brælum sem gengið hafi yfir sé allt í lagi að vera fyrir norðan land. „Þú ert laus við sjóinn því þó að það sé hvasst hérna þá rífur hann ekki upp eins mikinn sjó. Landið skýlir okkur hér fyrir þessum sunnan og suðvestan áttum.“

Sem fyrr segir ætlaði Helga María að landa á Sauðárkróki. Af fimmtán manna áhöfn fara tveir frá borði og tveir aðrir koma í staðinn.

„Það kemur hugsanlega einn að sunnan í staðinn og einn sem býr á Sauðárkróki,“ segir Heimir. Þegar svona standi á fari menn með bílaleigubílum á milli landshluta ef þörf krefji. „Þetta er ekkert vandamál, það eina sem þarf að spá í er náttúrlega færðin.“