Það er ýmislegt sem prinsar þurfa að læra áður en þeir geta tekið við krúnunni. Hákon krónprins í Noregi tók sig til á dögunum og kynnti sér sitthvað um fiskveiðar og vinnslu.

Krónprinsinn heimsótti eyjuna Senja í Norður-Noregi en þar er vetrarvertíðin rétt að fara í gang. Prinsinn fékk að fara í róður og fiska „skrei“ eins og Norðmenn kalla vertíðarþorskinn. Mynd af prinsinum með þorsk í höndunum var birt á twitt-síðu norsku hirðarinnar.

Áður en prinsinn fór á sjóinn kom hann við í fiskvinnsluhúsi í bænum Gryllefjord. Þar fékk hann kennslu í því hvernig á að gella þorskhausa. Það var hinn 16 ára gamli Trygve Flakstad sem kenndi prinsinum handtökin. Sjá MYNDBAND .