Bátum sem eingöngu stunda strandveiðar fer fækkandi, samkvæmt upplýsingum í nýbirtu Aflahefti Fiskistofu . Þessir bátar voru 230 í fyrra en voru 188 í ár.

Krókaaflamarksbátum á strandveiðum hefur hins vegar farið fjölgandi. Þannig stunduðu 246 þessara báta strandveiðar í hittifyrra, 317 í fyrra og 320 síðastliðið sumar.

Krókaaflamarksbátum sem einnig stunda grásleppuveiðar hefur fækkað verulega á strandveiðum eða úr um og yfir 100 bátum undanfarin ár í 65 á þessu ári.

Smábátar á aflamarki sem stunduðu strandveiðar síðastliðið sumar voru um hundrað talsins, þar af stundaði um helmingur þeirra einnig grásleppuveiðar en hinn helmingurinn ekki.