Krókaaflamarksbátar hafa veitt um 41% af öllum ýsuafla á fiskveiðiárinu, aflamarksskip 33%, togarar 24% og smábátar á aflamarki 2%, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda. Á tímabilinu hafa veiðst um 21.400 tonn af ýsu og afli krókaaflamarksbáta er því tæp 8.800 tonn. Á vef LS segir að krókaaflamarksbátar séu búnir að veiða tæpum eittþúsund tonnum meira af ýsu á fiskveiðiárinu heldur en þeir fengu úthlutað á grundvelli hlutdeildar, færslu milli ára og sérstakrar úthlutunar. Mismuninn hafi þeir að mestu brúað með leigukvóta úr stóra kerfinu og línuívilnun. Einnig hafi komið ýsa inn í veiðikerfi gegnum skiptimarkað Fiskistofu. Vakin er athygli á þessu vegna ágreinings um forsendur fyrir veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar í ýsu. Á vef LS segir ennfremur: ,,Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi hafa ýsuveiðar það sem af er fiskveiðiárinu gengið vonum framar. Það hefði átt að koma sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar á óvart og verða til þess að kafað væri ofan í forsendur ráðgjafarinnar. Bréf stofnunarinnar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um málefnið olli því vonbrigðum. Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú málið til meðferðar þar sem hann er ekki bundinn af afstöðu Hafró. Sjónarmið sjómanna og stofnunarinnar stangast á og því mikilvægt að ráðherra skoði málefnið sjálfstætt, þar sem fjölmargir fletir eru á því. Þar má nefna samsetningu á kvótanum milli þorsks og ýsu. Nánast útilokað að veiða þorsk öðruvísi en að fá ýsu með, sem kemur í veg fyrir fyllstu hagkvæmni við þorskveiðar. Aflatölur í ýsu segja því ekki allt um fiskgengdina þar sem bátarnir eru á stöðugum flótta undan ýsunni við þorskveiðar. Nánast engin ýsa í boði til leigu. Einnig er rétt að benda á að markaðir fyrir ýsu eru góðir og því engin hætta á verðlækkun þó kvótinn verði aukinn.“