Kröfur sjómanna á hendur útgerðar varðandi olíuverðsviðmið og bætur fyrir afnám sjómannaaflsláttar eru gróft reiknað metnar á 3 milljarða króna, að því er Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, sagði í samtali við Fiskifréttir.
Sem kunnugt er slitnaði upp úr viðræðunum í byrjun vikunnar í kjaraviðræðum sjómanna og útvegsmanna og deiluaðilar hafa ekki hist síðan. Sjómenn töldu ekki ástæðu til að halda viðræðum áfram nema gengið yrði að kröfum þeirra um lækkun á olíuverðsviðmiðun úr 70% í 73% og að útgerðin bætti þeim upp sjómannaafsláttinn sem tekinn var af í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Valmundur sagði að þeir væru með framreiknaða kröfu sem þýddi að bætur fyrir sjómannaafsláttinn væru um 2 þúsund krónur á hvern úthaldsdag. Í heild væri þetta um 1.200 milljóna kostnaður fyrir útgerðina á ári. Lækkun á olíuverðsviðmiðun væri í raun um 3% hækkun á skiptaprósentu og gæti gróft reiknað leitt til 1.700 til 1.800 milljóna útgjalda. Í heild væri um 3ja milljarða kostnaðarauka að ræða. „Einhverjum kann að þykja þetta háar tölur en í ljósi þess að innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru um 140 félög þá er þetta aðeins um 21 milljón á félag að meðaltali,“ sagði Valmundur.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.