Í greiningu Radarsins – mælaborðs sjávarútvegsins kemur fram að útflutningsverðmætið hefur ekki verið meira í janúarmánuði frá árinu 2002, sem er eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná.

Miðað við janúar í fyrra er aukning rúmlega 44% í krónum talið. Aukningin er nokkuð meiri í erlendri mynt, eða 50%, þar sem gengi krónunnar var ríflega 4% sterkara í janúar en í sama mánuði í fyrra.

Fryst gefur mest

Í ofangreindri aukningu munar mest um fryst flök. Útflutningsverðmæti þeirra námu rúmlega 6,8 milljörðum króna í janúar, sem er um 66% aukning frá janúar í fyrra á föstu gengi.

Af einstaka afurðaflokkum munar næstmest um lýsi en þar var aukningin hlutfallslega öllu meiri. Útflutningsverðmæti þess nam rúmlega 3,1 milljarði króna og jókst um 154% á milli ára á föstu gengi. Fiskimjöl nær þó hlutfallslega að toppa þá aukningu, en þar námu verðmætin rúmlega 1,1 milljarði króna og aukningin 343% á milli ára.

Útflutningsverðmæti ferskra afurða nam rúmlega 7,2 milljörðum króna í janúar og jókst um 18% á milli ára. Aukningin þar var nokkuð minni en í öðrum afurðaflokkum, en þar munar miklu um hverja prósentu því ferskar afurðir eru orðnar svo fyrirferðarmiklar. Útflutningsverðmæti á frystum heilum fiski var um 1,7 milljarðar króna og jókst um 40% á milli ára. Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða jókst um 26% á milli ára en verðmæti þeirra nam um 2,5 milljörðum króna. Útflutningsverðmæti rækju nam 655 milljónum króna og jókst um 50% á milli ára á föstu gengi, segir í greiningunni.