Kristina EA fékk 10 túnfiska í trollið í síðasta makríltúr og vógu þeir samtals um 2,4 tonn. Túnfiskarnir veiddust um 50 mílur suðsuðvestur af Reykjanesi, að því er Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri á Kristinu EA, sagði í samtali við Fiskifréttir.
Túnfiskarnir fengust snemma í túrnum og sagði Arngrímur að þeir hefðu ekki orðið varir við þá fyrr en farið var að sturta úr pokanum. Þá komu túnfiskarnir í ljós innan um makrílinn. Fiskarnir voru mikið um 150 kíló til 250 kíló að þyngd og þar yfir.