Makrílafli íslenskra skipa á siðasta ári var 154 þúsnd tonn. Þetta er næstmesti makrílafli íslenskra skipa nokkru sinni en árið 2011 veiddu íslensk skip 159 þúsund tonn, að því er fram kemur á vef Fiskistofu .
Alls lönduðu 271 skip makrílafla á árinu. Makrílréttindum innan lögsögunnar var skipt niður í nokkra flokka eða potta. Aflahæsta skipið úr þessum pottum var Aðalsteinn Jónsson SU með rúm 10 þúsund tonn. Því næst kom Huginn VE með rúm 8.800 tonn.
Á árunum 2009-2012 var meira en 97% makrílaflans aflað innan lögsögunnar en á síðasta ári fór hlutur makríls úr lögsögunni niður í 91%. Skýringin er aukinn afli úr Grænlenskri lögsögu en á síðsta ári veiddu íslensk skip tæplega 12 þúsund tonn.
Íslensk skip hafa einnig veidd makríl úr færeyskri lögsögu og hefur hlutur aflans úr henni verið á bilinu 1-1,5% síðastliðin sex ár að undanskildu 2009 þegar hluturinn fór í 2,7%.
Síðastliðið vor tókst samkomulag milli Íslands og Grænlands um veiðar við Grænland og löndun hérlendis. Grænlendingar gáfu út fimmtán þúsund tonna kvóta, og Íslendingar leyfðu löndun á allt að tólf þúsund tonnum af makríl hérlendis. Íslensk skip lönduðu alls 11.940 tonn úr Grænlenskri lögsögu. Kristína EA landaði mestum afla úr grænlenskri lögsögu hérlendis eða 3.581 tonn.
Ef horft er til heildarveiði íslenskra skipa af öllum svæðum þá var Kristína EA aflahæst með 12.041 tonn. Næst kom Aðalsteinn Jónsson SU með 10.766 tonn og Huginn VE með 9.737 tonn.