Matvælaöryggisstofnunin í Noregi segir æðstu stjórnendur laxeldisfyrirtækisins MOWI þurfa að axla ábyrgð á allt of miklum laxadauða í kvíum fyrirtækisins.
„180 þúsund dauðir laxar í einni stöð á einum mánuði. Laxeldisrisinn MOWI glímir við háa dánartíðni í Mið-Noregi. Matvælaöryggisstofnunin hefur kallað forsvarsmennina á teppið,“ segir í frétt Norska ríkisútvarpsins, NRK.
„Við upplifum þetta skýrt sem skorti á betrumbótum,“ hefur NRK eftir John Falch, deildarstjóra hjá Matvælaöryggisstofnuninni, varðandi tölur frá í janúar um laxadauða hjá MOWI sem eins og kunnugt er á meirihlutann í laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish á Íslandi.
Draga æðstu stjórnendur til ábyrgðar
Matvælaöryggisstofnunin kallaði stjórnendur MOWI á fund til að fylgja eftir fréttum um að þriðji hver lax í sumum eldisstöðvum fyrirtækisins í Mið-Noregi hafði drepist. Var þar um að ræða laxa sem settir voru í kvíarnar á árunum 2020 og 2021.
Falch segir ástandið lítið hafa batnað. „Þessir dánartíðnitölur eru allt of háar,“ hefur NRK eftir honum. „Við sáum okkur tilneydd að kalla inn æðstu stjórnendur fyrirtækisins. Það eru þeir sem draga þarf til ábyrgðar,“ segir Falch. Matvælaöryggisstofnunin sé ekki ánægð með þær ráðstafanir sem gripið hafi verið til eftir fyrri skoðun.
Svæðisstjórinn segir MOWI ætla að bæta stöðuna
„Við erum vitanlega ekki ánægð með þetta,“ segir Asgeir Hasund, svæðisstjóri hjá MOWI, við NRK um þessar tölur.
„Við vinnum að því hvern einasta dag að bæta okkur. Við gefumst ekki upp fyrr en við fáum þessar stöðvar á sama plan og aðrar stöðvar okkar á svæðinu,“ segir Hasund enn fremur í frétt NRK þar sem nánar má lesa um málið.