Ágætur gangur hefur verið í frystingu á loðnu og síld í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði upp á síðkastið. Ingunn AK og Lundey NS hafa verið að loðnuveiðum og Faxi RE á síldveiðum í Breiðafirði og hefur aflanum verið landað til vinnslu á Vopnafirði.

,,Það er fyrst nú síðustu dagana að kraftur hefur færst í frystingu á loðnu. Við flokkum stærstu loðnuna frá og frystum en þar er um að ræða loðnu af stærðinni 30 til 40 stykki í kílóinu. Það er trúlega um þriðjungur loðnuaflans sem fellur undir þá skilgreiningu,“ segir Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði, í samtali á heimasíðu fyrirtækisin s.

Lundey kom með um 1.050 tonna loðnuafla til Vopnafjarðar síðastliðinn föstudag og var loðnuafli skipa HB Granda þá orðinn um 3.500 tonn á vertíðinni.