Lögmaður Landssambands smábátaeigenda, Magnús Hrafn Magnússon, hefur sent sjávarútvegsráðuneytinu bréf þar sem krafist er afturköllunar ákvörðunar um stöðvun handfæraveiða á makríl. Að öðrum kosti áskilji LS sér rétt til að nýta þau úrræði sem félaginu standi til boða til að vernda hagsmuni félagsmanna sinna. Þetta kemur fram á vef LS.
Þar segir einnig að fjölmargir smábátaeigendur hafi haft samband við skrifstofu LS og lýst vonbrigðum með þá ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að heimila ekki áframhald færaveiða á makríl. „Meðal þess sem fram kom í samtölum við félagsmenn var krafa um að félagið stæði fast á þeim skilningi sínum að Fiskistofa hefði ekki heimild til að stöðva veiðarnar fyrr en 1.200 tonna afli tímabilsins sem hófst 1. september hefði verið veiddur,“ segir á vef LS.