Neðri deild rússneska þingsins hefur samþykkt frumvarp til laga um uppboð á 50% af öllum krabbakvóta í landinu. Skilyrði er að þeir sem hafa betur í uppboðinu verða að láta smíða ný krabbaskip innan fimm ára frá uppboðinu.
Í Rússlandi var farin sú leið til að hvetja til endurnýjunar togaraflotans að kalla inn allan kvótann, endurúthluta honum til 15 ára en ríkið hélt eftir 20% kvótans. Þau fyrirtæki í sjávarútvegi sem endurnýja skipin og/eða landvinnslurnar fá síðan viðbótarúthlutun án endurgjalds. Þetta hefur leitt til mikillar endurnýjunarbylgju nú þegar þar sem m.a. íslenskir aðilar hafa komið að.
Nú stendur einnig fyrir dyrum að endurnýja flota krabbaveiðiskipa sem mjög er kominn til ára sinna. Það hafa þó verið mjög skiptar skoðanir um innköllun kvótans og uppboð meðal útgerðarmanna.
35-40 ára gömul skip
Talið er uppboðsleiðin leiði til smíði á 40 nýjum krabbaskipum. Þau verða að vera yfir 50 metra löng og vera smíðuð innanlands. Krabbakvótinn í landinu er rúmlega 80.000 tonn og verða 40.080 tonn boðin upp. Fyrsta uppboðið á að halda í júlí og það er metið að allur kvótinn sem verður boðinn upp skili rússneska ríkinu um 1,6 milljarður dollara, um 196 milljarðar ÍSK.
Peter Savchuk, aðstoðarforstjóri rússneska útgerðarrisans Russian Fisheries, sagði á blaðamannafundi nýlega að nauðsynlegt væri að hið opinbera tæki endanlega ákvörðun hvaða leið verði farin til þess að hvetja til endurnýjunar krabbaskipaflotans.
„Krabbaskipin eru komin til ára sinna og gríðarleg þörf er fyrir nýja fjárfestingu í flotanum með það fyrir augum að ný skip verði smíðuð,“ sagði Savchuk. „Mörg skipanna eru 35-40 ára gömul sem skýrir enn frekar þörfina.“
Savchuk sagði þó að án nægilegs fjárhagslegs hvata frá ríkinu myndu útgerðaraðilar að miklu leyti endurnýja flotann með notuðum skipum frá Austur-Asíu af lakari gæðum. Hann bætti því við að áhöfnum stafaði enn meiri hætta af störfum um borð í þeim skipum.
„Nýtt krabbaskip kostar 25-35 milljónir dollara [3-4,3 milljarða ÍSK. Fáir útgerðarmenn eða fyrirtæki eru tilbúin að taka slíka áhættu án þess að skýrar leikreglur liggi fyrir,“ sagði hann. „Þess vegna verður ríkið að grípa inn í atburðarásina með ívilnunum af einhverju tagi.“
Sjávarútvegsvefurinn Undercurrent News sagði frá því í október að útgerðin North-West Fishing Consortium hefði slegið nýsmíðafjárfestingum sínum á frest vegna óvissu um stöðu mála hvað varðar krabbakvótann. Félagið taldi að það gæti jafnvel misst allt að 50% af sínum aflaheimildum vegna þessarar óvissu stöðu.
Savchuk segir að enn bóli lítið á fjárfestingum af þessu tagi og að rússneskir krabbaútgerðarmenn verði að taka af skarið hvort þeir ætli sér að taka þátt í uppboðinu.
„Greinin verður að hafa það í huga að það verður ekki lengur gert út á þessi gömlu skip. Ríkið þarf því að marka strax skýrar reglur svo það vefjist ekki lengur fyrir útgerðinni að hún verður að fjárfesta í nýjum skipum,“ sagði Savchuk .