Frystitogarinn Brimnes RE er nýlega kominn úr rúmlega 40 daga veiðiferð í Barentshafið þar sem hann stundaði rækjuveiðar í Smugunni og á Svalbarðasvæðinu. Aflabrögðin voru fremur slök en hátt rækjuverð vegur þar upp á móti. Í Smugunni var skipið innan um fjölda snjókrabbabáta sem voru með gildrulínur sínar út um allt á rækjuslóðinni svo erfitt var að forðast þær, að því er Páll Rúnarsson skipstjóri segir í viðtali í Fiskifréttum.

„Baujurnar á þessum krabbalínum sjást ekki og því lentum við ítrekað í því að draga í gegnum línurnar. Við það flækjast þær í trollunum og rækjuskiljunum. Reynt var að bæta ástandið með því að krabbaskipin sendu okkur tölvupóst á kvöldin með upplýsingum um legu krabbalínanna þannig að við gætum fært þetta inn á plotterinn hjá okkur. Við vorum stundum með 150 krabbalínur inni á plotternum,“ segir Páll.

Sjá nánar viðtal við Pál í nýjustu Fiskifréttum.