Sigurður VE er á heimleið eftir þriggja mánaða viðgerð í Noregi. Skipið var smíðað í Tyrklandi og ber skipasmíðastöðin þar í landi kostnað af viðgerðinni.
Eyjafréttir hafa það eftir Eyþóri Harðarsyni, útgerðarstjóri Ísfélagsins, að bilun hafi komið upp í spilkerfi skipsins. Frágangur á lögnum var ekki fullnægjandi.
„Þetta er alfarið ábyrgðarmál sem snýr að skipasmíðastöðinni,“ sagði Eyþór.
Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins, segir í samtali við kvotinn.is að skipasmíðastöðin greiði fyrir úrbæturnar enda eigi hún að skila nýju skipi með allan búnað í lagi.
„Það var hins vegar afar bagalegt að geta ekki beitt nýju skipi við veiðarnar í sumar og haust. Skipið fór utan áður en makrílvertíðinni lauk. Við náðum þó kvótanum í makrílnum, norsk-íslensku síldinni og íslensku sumargotssíldinni,“ segir Stefán.
Stefán segir að loðnan skipti félagið mestu máli og þar muni Sigurður VE koma að góðum notum. Því miður sé upphafskvótinn afskaplega lítill, ríflega 100.000 tonn og af því komi aðeins um 24.000 tonn í hlut Ísfélagsins. Hann segist vonast til þess að kvótinn verði aukinn, enda hafi náðst góð mæling á loðnuna í fyrra, þó svo það hafi ekki tekist í ár. Mælingin þá bendi til að loðnan standi nokkuð vel.