Verkefnisstjóri er dr. Magnea G. Karlsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, en styrkurinn nemur tæpri milljón króna en áætluð lok þessa verkefnis er á vormánuðum 2018. Verkefnið verður unnið í samstarfi við HB Granda og Ísfélag Vestmannaeyja, en þessi fyrirtæki hafa skipað sér í fremstu röð fyrirtækja á sínu sviði.
Hertur haus
Magnea útskýrir að síðustu áratugi hefur nýting þorskhausa til manneldis verið að mestu með þurrkun. Nígería hefur um langt skeið verið afar mikilvægur markaður fyrir herta þorskhausa og annan þurrkaðan fisk frá Íslandi. Í dag glímir Nígería hins vegar við mikinn efnahagsvanda sökum verðfalls á olíu og gjaldeyrishafta og því hefur eftirspurn eftir þorskhausum á þeim markaði dregist gífurlega saman síðan 2014. Nauðsynlegt sé því að leggjast í markvissa vöruþróun til að hægt sé að sækja fram með nýjar afurðir á nýja markaði.
„Til þess að það megi gerast er nauðsynlegt að kortleggja eiginleika þorskhaussins. Við slíkar greiningar er nauðsynlegt að horfa til mismunandi hluta höfuðsins þar sem samsetning og lífvirkni þeirra er mismunandi, sem getur leitt til vöruþróunar á mismunandi afurðum til manneldis. Þess til viðbótar er nauðsynlegt að taka tillit til annarra þátta eins og stærð fisksins og árstíma, þ.e. hvenær fiskurinn er veiddur, en fyrri rannsóknir hafa sýnt að efnasamsetning þorskholds og lifrar er mismunandi eftir árstíma og þá oftast tengt hringingu og fæðuframboði hverju sinni. Sú þekking sem skapast í þessu verkefni væri í framtíðinni hægt að yfirfæra á aðrar bolfiskstegundir sem gefur grundvöll fyrir enn frekari verðmætasköpun. Verkefnið skapar einnig grunn fyrir markviss rannsóknarverkefni, vöruþróun og frekari verðmætasköpun í íslenskum sjávariðnaði,“ segir Magnea.
Vannýtt hráefni og víða hent
Auk þess að þurrka þorskhausa hefur tíðkast að selja þá einnig frysta í talsverðu magni. Verðmæti þeirra er þó töluvert minna en þeirra þurrkuðu og því ekki fýsilegt að auka slíka vinnslu vegna þeirra aðstæðna sem upp eru komnar, að sögn Magneu.
„Á mörgum stöðum í heiminum eru þessir hlutar fisksins ekki nýttir, jafnvel kastað fyrir borð. Séu þeir nýttir er það helst í dýrafóður. Þar sem markaðurinn fyrir frosna og þurrkaða þorskhausa er eins lítill og raun ber vitni væri best að leita leiða til að framleiða lífvirkar afurðir og próteinduft eða aðrar heilsuvörur úr hausunum til þess að hámarka verðmæti þeirra og þar af leiðandi þorsksins sem veiddur er við strendur Íslands,“ segir Magnea.
Rannsóknir hafa sýnt að mögulegt er að nýta þorskhausa til framleiðslu á próteinafurðum. Með áframhaldandi rannsóknum á mögulegum framleiðslu próteins og annarra heilsuvara væri hægt að auka verðmæti hráefnisins töluvert. Gríðarlega stór markaður er fyrir fæðubótarefnum og heilsuvörum víðsvegar um heim og þar er Ísland alls ekki undanskilið, bætir Magnea við.