Vinna við kortlagninu stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi er hafin á vegum matvælaráðuneytisins.

„Markmið þeirrar vinnu er að stuðla að gagnsæi í eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja ásamt upplýstri stefnumótun stjórnvalda um regluumgjörð sjávarútvegs og breytingar á henni,“ segir í frétt á vef stjórnarráðsins.

Þessi kortlagning verður sett fram í sérstakri skýrslu sem verður afhent matvælaráðuneytinu eigi síðar en 31. desember 2023 og á að nýtast í stefnumótunarvinnu ráðuneytisins um sjávarútveginn.

„Matvælaráðuneytið hefur gert samning við Samkeppniseftirlitið um að tryggja fjárhagslegt svigrúm til að stofnunin geti ráðist í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Samhliða er stefnt að auknu samstarfi stofnana á þessu sviði, þ.e. Samkeppniseftirlitsins, Fiskistofu, Skattsins og Seðlabanka Íslands.

Athuguninni er fyrst og fremst ætlað að auka gagnsæi og bæta stjórnsýslu á sviði eftirlits með stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Í athuguninni felst upplýsingasöfnun og kortlagning eignatengsla sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa fengið úthlutað ákveðnu umfangi aflaheimilda og áhrifavaldi eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í fyrirtækjum.“

Auðlindin okkar opnuð

Jafnframt hefur ráðuneytið opnað vefsíðuna audlindinokkar.is, en kortlagningin er liður í því verkefni sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ýtti úr vör í maí með skipan fjögurra starfshópa og samstarfsnefndar um sjávarútvegsstefnu.

Á síðunni má finna upplýsingar um upplegg og tilgang verkefnisins, skipan starfshópa og samráðsnefndar. Einnig er að finna á síðunni yfirgripsmikið gagnasafn um sjávarútveg. Þar má nálgast gögn og fundargerðir starfshópa og samráðsnefndar, ásamt lögum, dómum, frumvörpum, álitum og úrskurðum. Jafnframt er þar að finna yfirlit yfir þá hagaðila sem starfshóparnir hafa rætt við.

Í verkefninu Auðlindin okkar er lögð áhersla á opna, þverfaglega og gagnsæja nálgun. Því eru allir þeir sem áhuga hafa hvattir til að hafa samband í gegnum síðuna eða netfangið [email protected] til að koma skoðunum, upplýsingum eða spurningum á framfæri.

Vinna starfshópa og samstarfsnefndar hófst í júní og gert er ráð fyrir að endanleg afurð þeirra vinnu líti ljós sem frumvörp til Alþingis vorið 2024.