Grunnrannsóknir Rastar sjávarrannsóknaseturs og Hafrannsóknastofnunar í Hvalfirði hafa nú sýnt með fjarstýrðum neðansjávardrónum að útbreiðsla kóralþörunga (Lithothamnium sp.) er meiri en áður var talið. Sagt er frá þessum rannsóknum á heimasíðu Rastar.
Kóralþörungar mynda mikilvæg búsvæði fyrir ungviði þorskfiska og annað lífríki og hafa því mikið verndargildi. Nauðsynlegt er að vernda svæðin gegn ágangi, raski og mengun. Sérstaklega þarf að gæta að áhrifum súrnunar sjávar sem hamlar kalkbindingu og vexti þörunganna.
Þarf að efla rannsóknir og kortlagningu
Aðrar nýlegar rannsóknir við Ísland benda til þess að kóralþörungar myndi mikilvæg búsvæði fyrir ungviði þorskfiska og annað dýralíf. Kóralþörungar eru kalkkenndir hægvaxta rauðþörungar sem hafa greinótta lögun og líkjast því kórölum. Þörungarnir fella út kalsíumkarbónat í frumuveggjum sínum sem gerir þá stökka og mynda það sem líkist graslendi á sjávarbotni sem mynda þessi lykilbúsvæði fyrir lífverur líkt og fiska eins og þorsk, ufsa og ýsu í Hvalfirði og á nærliggjandi svæðum. Kóralþörungarnir hafa því mikið verndargildi og mikilvægt er að forða slíkum svæðum frá ágangi mannsins, t.d. frá dregnum veiðarfærum, mengun og annars konar raski. Til þess að slík verndun sé markviss þarf að efla rannsóknir og kortlagningu á svæðinu.
Uppgötvun þessi undirstrikar mikilvægi rannsókna í Hvalfirði til þess að auka skilning á lífríki og haffræði á grunnsævi ásamt öðrum vistkerfunum við strendur Íslands, en firðir og flóar landsins eru lykiluppeldissvæði okkar helstu nytjastofna. Vísindafólk Hafrannsóknastofnunar er enn að vinna úr myndabandsupptökum drónanna og verður fróðlegt að sjá ítarlegri greiningar þegar því líkur.

Súrnun sjávar aukist
Kóralþörungar eru lífverur sem lifa á litlu dýpi, vaxa hægt og eru viðkvæmir fyrir raski á sýrustigi hafsins þar sem súrnun sjávar gerir það að verkum að uppbyggingarefni þeirra, kalsíumkarbónat, leysist frekar upp sem gerir þá brothættari. Eðli þessara sjávarlífvera er því jafnframt áminning um veikleika þeirra og annarra lífvera gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga m.a. vegna losunar koldíoxíðs í andrúmsloftið. Upptaka hafsins á umfram koldíoxíð úr andrúmsloftinu veldur súrnun sjávar sem hefur síðan áhrif á efnafræði hafsins – sem hefur alvarleg neikvæð áhrif á uppbyggingu sjávarlífvera og þar með á samfélög manna sem reiða sig á sjálfbæra nýtingu þeirra.
Súrnun sjávar hefur aukist um 30% frá því fyrir iðnbyltingu og er búist við að hún muni aukast enn frekar. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að sýrustig sjávar er nú þegar að ná ákveðnum vendipunktum, þar sem við tekur framvinda sem er skaðleg fyrir margskyns lífverur sem gegna lykilhlutverkum í vistkerfum sjávar. Þá hefur verið sýnt fram á að sjávarvistkerfi á norðurslóðum, eins og við Ísland, eru sérstaklega viðkvæm fyrir súrnun sjávar m.a. vegna þess að kaldur sjór tekur upp meira af koldíoxíð úr andrúmsloftinu en hlýrri.
Uppgötvun þessi er þá einna helst mikilvæg áminning og hvatning til vísindafólks og íslenskra stjórnvalda að efla hafrannsóknir og loftlagsvísindi.
Röst sjávarrannsóknasetur hefur það markmið að halda áfram að stuðla að grunnrannsóknum og vísindastarfi sem auka þekkingu og skilning á hafinu og vistkerfum þess með hliðsjón af þeim umhverfisbreytingum sem eiga sér stað í dag.