Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar fá stopul tækifæri til að stunda frekari rannsóknir á kóralsvæðum hér við land.

Hafrannsóknastofnun hefur sent frá sér skýrslu um kortlagningu búsvæða og gerð er ítarleg grein fyrir kortlagninu kóralsvæða allt frá Reykjanesshrygg og áfram eftir landgrunnskantinum sunnanlands og áfram til Færeyja.

Þessar rannsóknir voru gerðar á árunum 2008 til 2012, en síðan þá hafa vísindamenn á vegum Hafrannsóknastofnunar aðeins haldið í þrjá leiðangra til að kortleggja búsvæði. Fjármagn hefur verið af skornum skammti enda þótt mikilvægi rannsókna af þessu tagi sé mönnum ljósara en áður var.

Steinunn Hilma Ólafsdóttir, aðalhöfundur skýrslunnar, segir að töluvert vanti enn upp á til þess að fá fullnægjandi yfirlit yfir kóralsvæði hér við land.

„Þetta er langtímaverkefni,“ segir hún. „Við komumst ekkert í ár en vonandi á næsta ári. Það eru líkur á að við komumst þá, meðal annars í samstarfi við Grænlendinga.“

Hún segir þó að stundum komi hingað erlendir rannsóknarleiðangrar og Hafrannsóknastofnun reyni að komast í samstarf við þá.

„Því meira sem við getum lagt fram af upplýsingum því fleiri geta komið hingað að rannsaka. Þetta vindur þannig upp á sig, en við náum ekkert að gera rosalega mikið sjálf. Það er það mikill kostnaður í þessu.“

Þekking sjómanna

Kórall hefur verið þekktur við Ísland frá því um aldamótin 1900 og á árunum 1991-2004 fundust um 60 tegundir kórala hér við land, en sýnum hafði þá verið aflað á 579 stöðvum á 20 til 3000 metra dýpi í kringum landið.

Sjómenn hafa lengi þekkt til kóralsvæða hér við land, en í skýrslunni segir að talið hafi verið að hér við land gæti einnig verið að finna kóralrif.

Í samantekt Hafrannsóknastofnunar árið 2004 kom fram að líklega hafi kóralrifum við Ísland hafi fækkað verulega síðan 1970 og að kórall hafi horfið á mörgum svæðum síðan veiðar með dregnum botnveiðarfærum hófust.

Viðkvæm vistkerfi

„Kóralsvæði eru einhver viðkvæmustu vistkerfi hafsins. Áhrif mannsins á þau hafa verið neikvæð vegna mengunar, loftslagsbreytinga, veiða og ágangs ferðamanna,“ segir í skýrslunni.

Einkum eru það veiðar með togveiðarfærum á botni sem hafa valdið skemmdum á kóralrifum í köldum sjó. En veiðarfæri geta einnig haft slæm áhrif á kóral án þess að brjóta hann niður, því dregin veiðarfæri róta upp mjúku setlagi á botninum og ef setlagið sest á kóral getur hann drepist.

„Kórall í djúpum sjó nærist á fæðuögnum í vatnsmassanum sem hann fangar með öngum sínum,“ segir í skýrslunni. „Þegar set sest á anga kóralsins truflar það fæðuöflun og kórallinn nærist ekki á meðan.“

Kórölum stafar ekki aðeins ógn af veiðarfærum heldur er óttast að súrnun sjávar muni hafa áhrif á kórala, einkum á þá sem eru í köldum sjó. Þeir vaxa hægar en kóralar í hlýjum sjó. Loks hefur verið sýnt á að plastagnir hamli vexti kórala, meðal annars vegna þess að þær setjast á anga kóralsins og hindra þannig að hann geti fangað fæðu.

„Það eru því margir þættir sem geta haft neikvæð áhrif á þessi sérstöku vistkerfi,“ segir í skýrslunni.

Margt enn óþekkt

„Margt er enn óþekkt varðandi kóralsvæðin hér við land, vistfræði þeirra, lífríkið sem þau geyma og hlutverkið sem þau gegna,“ segir í skýrslunni.

Þar segir að kórall vaxi víða en hann byggi ekki upp rif hvar sem er.

„Vissir staðir eða svæði virðast henta betur en önnur. Kóralrifin þarf að kortleggja betur og fylgjast þarf með hvort veiðimynstur breytist þannig að veiðar færist yfir á ný svæði sem getur haft slæmar afleiðingar fyrir þessi viðkvæmu svæði.“

Í skýrslunni kemur fram að við Ísland finnist kórall á afar fjölbreyttu botnlagi.

„Kórall er á virku eldsumbrotasvæði, í gljúfrum, á hryggjum, á landgrunninu og í landgrunnskantinum. Ýmis fyrirbæri, eins og jökulruðningar, jökulrákir, hraun, sethryggir og grjót eru dæmi um undirlag sem kórall nýtir sér.“

Kanturinn við suðurströndina

„Kanturinn við suðurströndina er víða mjög brattur og skorinn með giljum og hryggjum. Kórall vex á þessum slóðum en rannsóknir eru enn sem komið er takmarkaðar við nokkur snið sem liggja í kantinum milli Háfadjúps og Reynisdjúps, út af Kötlugrunni, út af Hornafjarðardjúpi, út af Stokksnesgrunni, út af Lónsdjúpi og út af Papagrunni. Kóralbreiður í landgrunnskantinum eins og þær sem er að finna úti fyrir Lónsdjúpi og úti fyrir Papagrunni er ekki hægt að sjá á fjölgeislakortum og því ekki vitað um útbreiðslu kóralrifa í kantinum."

Fram kemur að veiðiálag hafi ekki verið mikið í þessum bröttu köntum heldur fari veiðar mest fram við brúnina eftir landgrunninu.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 16. júlí sl.