Markmiðin í öryggisáætluninni er að 10% íslenskra skipa taki upp vottað öryggisstjórnunarkerfi á hverju ári, að fjöldi skipa sem halda lögboðnar björgunaræfingar verði helmingi fleiri, að fjöldi skipa sem framkvæma og viðhalda virku áhættumati og atvikaskráningum verði helmingi fleiri og að eftirlit með framkvæmd björgunaræfinga og áhættumats um borð í skipum á hafi úti verði stóraukið.
Siglingaráð annast eftirlit með framkvæmd áætlunarinnar. Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður Siglingaráðs, segir fjölda látinna á sjó hafa dregist saman úr 25 á ári að jafnaði á árunum 1958-1967 í 1 á ári að jafnaði á árunum 2008-2017. Enginn hefur látist í sjóslysum á árunum 2017 til og með árinu 2021.
Betri skip og eftirlit
„Það sem hefur haft áhrif í þessa átt eru betri skip og eftirlit, áhrif fiskveiðistjórnunarkerfisins sem hefur dregið úr sjósókn í vondum veðrum, betri þjálfun sjómanna með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna, tilkoma vaktstöðvar siglinga, efling Landhelgisgæslunnar, tilkynningaskylda íslenskra skipa og aukin öryggisvitund meðal sjómanna og útgerða,“ segir Ásta.
Ásta segir að megináhersla sé nú lögð á öryggisstjórnun um borð í skipum í öryggisáætlun sjófarenda. Um 80% slysa í fiskiskipum megi rekja til mannlegra mistaka.
Ásta bendir á að í engri annarri atvinnugrein starfi færri konur en í stétt sjókvenna. Það sé meðal annars skýringin á gríðarlegum launamun kvenna og karla innan sjávarútvegs. Þar skiptir meginmáli hve mikið er greitt er fyrir að gera að fiski úti á sjó í samanburði við greiðslur í landi. Rannsóknir bendi ennfremur til að störf kvenna á fiskiskipum stuðli að auknu öryggi um borð.
„Það er til að mynda athyglisvert að á tímum „me-to“ byltingarinnar hafa engar sjókonur sögur að segja af kynferðislegu áreiti. Það kemur líka í ljós að þær vilja hafa fleiri konur í áhöfn og taka gjarnan í prjóna á frívaktinni. En nærvera þeirra hefur jákvæð áhrif í átt til aukins öryggis. Karlmenn hagi sér almennt öðruvísi sé kona eða konur í áhöfninni og það ýti undir aukna öryggisvitund þeirra."